Til eru þó nokkur dæmi um gamlar flugvélar sem breytast í veitingastaði eftir að hafa verið teknar úr notkun. Í Colorado Springs má t.d. finna gamla herflugvél sem rýmir nú 42 veitingagesti og á Nýja-Sjálandi er gömul DC-3 flugvél sem breyttist í McDonald‘s.
Það er hins vegar sjaldgæfara að sjá veitingastað sem rekur sitt eigið flugfélag en frá 2003 til 2006 var veitingakeðjan Hooters með flugfélag sem samanstóð af sjö Boeing-þotum.
Veitingastaðurinn Hooters var stofnaður árið 1983 og varð frægur fyrir bæði kjúklingavængi sína sem og afgreiðslustúlkurnar sem gengu um í appelsínugulum stuttbuxum og sýnilegum bolum. Keðjan er nú með fleiri en 300 veitingastaði víðs vegar um Bandaríkin og hátt í 30 staðsetningar um allan heim.
Flugfélagið var þá stofnað þann 6. mars 2003 af Robert Brooks, stofnanda Hooters of America, en hann hafði keypt leiguflugfélagið Pace Airlines í desember 2002. Hugmyndin var að nota flugfélagið sem óhefðbundna auglýsingu og var það stundum kallað fljúgandi auglýsingaskilti.

Stærsti markaðshópur flugfélagsins var fyrst og fremst kylfingar sem vildu heimsækja einhverja af þeim hundrað golfvöllum í Myrtle Beach í Suður-Karólínu, þar sem flugfélagið var með höfuðstöðvar sínar.
Í hverju flugi voru tvær þjónustustúlkur klæddar í hinn hefðbundna Hooters-búning og aðstoðuðu áhafnir flugsins með því að bera fram mat og drykk.
Þrátt fyrir að hafa auglýst sig sem lággjaldaflugfélag þá voru þægindin töluvert meiri hjá Hooters Air en hjá öðrum samkeppnisaðilum. Nokkrar sætisraðir voru til að mynda fjarlægðar til að geta veitt 86 cm fótarými, sem var sambærilegt við fyrsta farrými annarra flugfélaga.
Þar að auki voru sætin bólstruð með dökkbláu eða svörtu leðri og var allur matur og drykkur ókeypis í öllum flugferðum sem voru lengri en ein klukkustund.
Allt tekur enda um síðir
Þann 8. desember 2005 tilkynnti Hooters Air að það myndi hætta flugi til Rockford, Illinois í janúar vegna aukinnar samkeppni frá United Airlines á Rockford-Denver flugleiðinni.
Öll starfsemi hætti síðan þann 17. apríl 2006 og ákvað flugfélagið því að stöðva áætlunarflug og endurgreiða alla flugmiða. Ástæðan var sögð vera hækkandi eldsneytiskostnaður í kjölfar fellibyljanna Katrinu og Ritu haustið 2005.
Í júlí 2006 lést síðan stofnandinn Robert H. Brooks og var hann þá 69 ára gamall. Talið er að flugfélagið hafi kostað veitingakeðjuna Hooters of America 40 milljónir dala.