Þrátt fyrir að hlutabréfamarkaður hafi rétt nokkuð úr kútnum undir lok síðasta árs áttu hlutabréfasjóðir heilt yfir í vök að verjast á síðasta ári. Fjallað var um ávöxtun hluta- og skuldabréfasjóða í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Kjaraviðræður, Marel og Alvotech

Af samtölum Viðskiptablaðsins við markaðsaðila að dæma ríkir nokkur bjartsýni um horfur á markaði fyrir árið 2024. Þrátt fyrir að árið 2023 hafi í heild sinni verið erfitt á mörkuðum hafi árið endað vel og árið 2024 farið vel af stað.

Viðmælendur blaðsins höfðu allir orð á því að þrír yfirvofandi atburðir muni hafa mikið að segja um þróun markaðarins á næstu mánuðum og setja tóninn fyrir stemninguna á markaði.

Fyrsti atburðurinn eru kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins. Annað hljóð virðist nú í verkalýðsforingjum en áður og tala þeir fyrir samningum í anda þjóðarsáttar sem gerð var fyrir nærri 34 árum hér landi. Náist skynsamlegir kjarasamningar eru viðmælendur sammála um að það muni líkast til virka sem vítamínsprauta fyrir markaðinn.

Í öðru lagi muni niðurstaða í málefni Marels hafa mikið um framhaldið að segja. Málefni Marels hafa mikið verið í fréttum undanfarna mánuði en eins og staðan er í dag eiga stjórnir Marels og bandaríska félagsins John Bean Technologies (JBT) í óformlegum viðræðum um yfirtöku þess fyrrnefnda á því síðarnefnda. Uppfærð óskuldbindandi viljayfirlýsing JBT um valfrjálst yfirtökutilboð í öll hlutabréf Marels hafði eins og þekkt er orðið jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa félagsins. Náist jákvæð niðurstaða í málið gera viðmælendur blaðsins ráð fyrir að það muni einnig hafa jákvæð áhrif á markaðinn.

Síðast en ekki síst muni niðurstaða úttektar bandaríska Lyfjaeftirlitsins á framleiðsluaðstöðu Alvotech, sem vænta má í næsta mánuði, hafa mikil áhrif á þróun markaðarins.

Að því gefnu að niðurstaða atburðanna þriggja verði jákvæð eru viðmælendur blaðsins sammála um að nýhafið ár verði mun betra en síðustu tvö árin á undan. Meðal annarra áhrifaþátta sem markaðsaðilar höfðu orð á að gæti haft áhrif á stemninguna á markaði eru loðnuráðgjöf og fyrirhuguð sala Kviku banka á TM. Þá kvaðst einn markaðsaðili sjá fram á metár hjá mörgum hlutabréfasjóðum, að því gefnu að ofangreind atriði fái jákvæða niðurstöðu.

Að lokum má ætla að framvinda mála í Grindavík geti haft sitt að segja um framhaldið. Óvissa ríkir um hve mikil áhrif hamfarirnar munu að hafa á ríkisfjármálin og rekstur fjármálafyrirtækja, þá sérstaklega tryggingafélaga og lánastofnana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild sinni hér.