UN Women á Íslandi hefur ráðið þrjár nýjar starfskonur til samtakanna sem koma til með að stýra fjáröflun, stafrænni markaðssetningu og skrifstofurekstri.
Vilborg Anna Garðarsdóttir tekur við starfi fjáröflunarstýru samtakanna og ber ábyrgð á einstaklingsmiðaðri fjáröflun UN Women á Íslandi, samskiptum við mánaðarlega styrktaraðila ásamt því að leiða starf fjáröflunarhóps samtakanna. Vilborg er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst. Vilborg hefur unnið lengst af í fjármálum og var framkvæmdastjóri fjármálasviðs í átta ár hjá fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Vera Líndal Guðnadóttir hóf nýverið störf sem sérfræðingur í samfélagsmiðlun hjá UN Women á Íslandi og ber ábyrgð á stafrænni markaðssetningu og samfélagsmiðlum samtakanna. Vera er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og diplómagráðu fráMyndlistaskólanum í Reykjavík. Síðastliðin ár hefur Vera starfað við verkefna- og viðburðastýringu, innri markaðssetningu og samfélagsmiðla hjá Símanum, hún var einnig lengi vel ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar.
Áslaug Ármannsdóttir er rekstrarstýra samtakanna og ber ábyrgð á skrifstofurekstri og starfsmannahaldi, verkefnastjórnun, og fyrirtækjasamstarfi. Áslaug er með BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og MPM gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur lokið námi í markþjálfun frá Coach U og teymisþjálfun frá Team Coaching Studio. Síðustu ár hefur Áslaug starfað við verkefnastýringu, mark- og teymisþjálfun.