Þrjár arkitektastofur hafa verið valdar til að vinna tillögur að hönnun og skipulagi vegna fyrirhugaðrar íbúabyggðar á lóð við Ægisíðu 102 í Vesturbænum sem í dag hýsir þjónustustöð N1.

Stofurnar þrjár eru Trípólí, Gríma arkitektar og Sei Studio en valnefnd kemur til með að velja þá tillögu sem best þykir falla að áformum um vinnu við deiliskipulag sem tekur mið af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040.

Gert er ráð fyrir að niðurstaða um val á tillögu liggi fyrir í mars næstkomandi en Reykjavíkurborg verður til ráðgjafar við yfirferð á tillögunum.

Í valnefnd um þróun lóðarinnar sitja Guðrún Ingvarsdóttir, arkitekt, G. Oddur Víðisson, arkitekt og Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Festi fasteigna.

Í tilkynningu frá Festi segir að við val á arkitektastofum til þátttöku hafi einkum verið litið til þess að framsýni og næmni kæmi fram í fyrrum verkum þeirra og að stofurnar væru með reynslu af skipulagi og þróun þar sem lögð er áhersla á góða nýtingu lands og þéttingu byggðar.

„Það er mikið framfaraskref að nú sé þessi vegferð hafin þar sem gott samtal við íbúa svæðisins og Reykjavíkurborg verður leiðarstefið í allri vinnu þegar kemur að hönnun og útfærslu á svæðinu í heild. Við hlökkum til að sjá tillögurnar og leggjum okkur fram um að vanda alla þá vinnu sem fram undan er í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg þannig að uppbyggingin falli sem best að áformum hennar, hverfinu til sóma,“ segir Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Festi fasteigna.

„Við erum gríðarlega ánægð með að loks sé þetta verkefni komið af stað. Stofurnar sem valdar voru fá einstakt tækifæri til að spreyta sig á hönnun þessa verðmæta svæðis sem er íbúum borgarinnar svo mikilvægt. Fyrir liggur stefna Reykjavíkurborgar um að sú starfsemi sem á lóðinni er víki og í staðinn komi íbúabyggð. Með samkeppni um þróun svæðisins teljum við mestar líkur á að niðurstaða fáist sem falli að þörfum íbúa og borgarinnar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi.

Bensínafgreiðsla færist á lóð Krónunnar á Grandanum

Festi segir að ekki séu fyrirhugaðar breytingar á starfsemi þjónustustöðvar N1 á Ægisíðu að sinni, en bensínafgreiðsla komi þó til með að færast á lóð Krónunnar á Fiskislóð á Granda jafnskjótt og sú breyting verður fær.

Á Ægisíðu verður áfram starfrækt dekkjaverkstæði og önnur þjónusta þar til hægt verður að hefjast handa við frekari þróun svæðisins að fengnum tilskyldum leyfum.