Halldór Snær Kristjánsson, framkvæmdastjóri Myrkur Games, segir að viðbrögðin við nýjasta tölvuleik fyrirtækisins, Echoes of the End, hafi verið mjög góð en félagið gaf út leikinn þann 12. ágúst sl.
Leikurinn er sögudrifinn hasar- og ævintýraleikur og var gefinn út samtímis af fyrirtækinu Deep Silver fyrir PC-tölvur, PlayStation 5 og Xbox Series.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að slíkur hasar- og ævintýrasöguleikur af þessu umfangi hafi ekki verið gefinn út áður hér á landi og að margir spilarar séu enn að átta sig á því að leikurinn komi frá Íslandi.
„Þetta hefur gengið mjög vel og það var mikið verkefni að gefa leikinn út samtímis á mismunandi leikjatölvum, sérstaklega þar sem við erum líka lítið teymi sem var að vinna með mjög stóran leik.
Halldór segir að útgáfan hafi gengið vel en bætir við að nokkrir hnökrar hafi komið upp á fyrstu dögum. Starfsmenn Myrkur Games hafi hins vegar verið mjög fljótir að laga þá og séu enn að vinna í því að gera leikinn betri.
„Fyrsta uppfærslan frá okkur kom þremur dögum eftir útgáfudag á PC-tölvu og svo vorum við að gefa út aðra uppfærslu í gær í samræmi við ábendingar frá spilurum. Við erum að sjá svakalega góð viðbrögð á þeirri uppfærslu og svo kemur þriðja uppfærslan í næstu viku en hún er í samræmi við ábendingar fólks um HDR í sjónvörpum og fleira.“
Hann segir að hugmyndafræði fyrirtækisins hafi alltaf verið að bregðast fljótlega við ábendingum og líka að kynna tölvuleiki eins og þeir eru í raun og veru. Stikla leiksins var einmitt frumsýnd á Future Games Show í Los Angeles í byrjun júní og fékk mikið lof fyrir að sýna hvernig raunverulegt spil í leiknum lítur út.
„Við erum náttúrulega að gera leikinn fyrir fólk og tilgangurinn er að fólk hafi gaman. Við gerum því allt sem við getum til gefa út vöru sem er í takt við væntingar og auka upplifun fyrir spilara. Myrkur Games er bara lítið krúttlegt fyrirtæki úti á Granda en við erum mjög dugleg að hlusta og grípum allt sem við getum gripið.“
Fallegur iðnaður
Halldór segir að heilt yfir sé tölvuleikjaiðnaðurinn mjög fallegur og að framleiðendur séu ekki í eins mikilli samkeppni og í öðrum geirum. Fólk starfi innan iðnaðarins út af ástríðu og sækist í að skapa góða upplifun fyrir aðra.

„Þegar við vorum að byrja með okkar fyrirtæki þá var það fyrsta sem ég gerði var að hringja í önnur fyrirtæki, bæði hér á landi og erlendis, til að fá ráð. Við vorum þá bara þrír nýútskrifaðir háskólanemar en þrátt fyrir það tóku allir fund með okkur og gáfu okkur einn til tvo klukkutíma til að gefa okkur ráð.“
Hann bendir líka á Game Developers Conference í San Francisco, sem er stærsta árlega tölvuleikjaráðstefna í heimi, en þar mæta öll helstu tölvuleikjafyrirtæki og segja frá öllum leyndarmálum sínum um það hvernig þau unnu að sínum nýjustu leikjum.
„Það er líka góður samfélagslegur þáttur í þessu en margir af mínum vinum sem ég á í dag kynntist ég í gegnum það að spila leiki á netinu og hafa þau vinabönd enst í 20 ár. Þetta hefur rosalega jákvæð áhrif og við hlökkum til að sjá enn fleiri Íslendinga spila leikinn.“