Sigrún Kristjánsdóttir var nýlega ráðin til KPMG þar sem hún mun bera ábyrgð á stoðsviði félagsins og sitja í framkvæmdastjórn þess. Hún starfaði áður sem forstöðumaður hjá Origo. „Ég hef mikinn áhuga á stafrænni þróun, sjálfvirknivæðingu og framtíð fjármálasviða. Það er svo ör þróun á þessu sviði. Þá verður innleiðing stefnu KPMG á minni ábyrgð ásamt stuðningi við rekstur og stefnumótun einstakra sviða," segir Sigrún sem er spennt fyrir því að starfa hjá alþjóðlegu fyrirtæki.

Í byrjun árs stofnaði Sigrún fyrirtækið SoGreen með vinkonu sinni, Guðnýju Nielsen. Það er trú SoGreen að valdefling kvenna með menntun sporni gegn barnahjónaböndum og ótímabærum þungunum unglingsstúlkna. „Fyrirtækið skoðar möguleikann á því að selja kolefnisjöfnun með því að mennta stúlkur. Þegar stúlkum er á þennan hátt veitt vald til að taka eigin ákvarðanir hefur það gríðarlega jákvæð áhrif á umhverfið í ljósi þess að þær velja þá yfirleitt að eignast færri börn," segir Sigrún.

„Þetta er bara alveg eins og með trén, fyrirtækin kaupa kolefnisjöfnun af til dæmis Kolviði eða Votlendissjóði sem fara svo og planta trjám en við menntum stúlkur. Þetta virkar auðsjáanlega bara í löndum þar sem stúlkur hafa ekki greiðan aðgang að menntun og þess vegna erum við bara að horfa til fátækari ríkja,“ segir Sigrún sem sinnir þessu verkefni samferða starfi sínu hjá KPMG.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .