Ágreiningur for­seta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og Seðla­banka Bandaríkjanna (Fed) náði nýju há­marki í gær þegar Trump til­kynnti að hann hefði rekið Lisa Cook, sem var skipuð í stjórn seðal­bankans af Joe Biden árið 2022.

Hann sakar Cook um að hafa veitt rangar upp­lýsingar um húsnæðislánumsóknir sínar árið 2021 en hún neitar sök og segist ekki ætla að segja af sér.

Trump birti bréf á sam­félags­miðlum þar sem hann segist hafa „næg rök“ til að fjar­lægja Cook úr em­bætti.

Ásakanirnar byggjast á yfir­lýsingum Bill Pulte, yfir­manns Federal Housing Finance Agen­cy, sem heldur því fram að Cook hafi lýst tveimur fast­eignum sem sínu aðal­heimili í tveimur um­sóknum sem sendar voru inn með tveggja vikna milli­bili

Cook svaraði harð­lega og sagði for­setann hvorki hafa vald né laga­stoð til að reka hana.

Lög­maður hennar, Abbe Lowell, kallar að­gerðirnar „ólög­mætar“ og segist munu leita allra leiða til að stöðva þær.

Enginn seðla­banka­stjóri hefur áður verið rekinn úr starfi af for­seta Bandaríkjanna frá stofnun bankans árið 1913.

Lögum sam­kvæmt má aðeins fjar­lægja meðlimi bankaráðsins „af gildri ástæðu“ og sér­fræðingar telja að Trump þurfi að sanna bæði að brot hafi átt sér stað og að þau teljist veru­leg til að vinna slíkt mál fyrir dómstólum.

Hæstiréttur hefur ný­lega dregið úr vernd starfs­manna sjálf­stæðra stofnana, en í fyrra benti dómstóllinn þó á að seðla­banka­stjórar njóti lík­lega meiri verndar en starfs­menn annarra stofnana.

Lög­fræðingar telja því að málið gæti skapað mikilvægt for­dæmi um mörk fram­kvæmdar­valdsins gagn­vart sjálf­stæði Seðla­bankans.

For­setinn segir að að­gerðir sínar snúi að trausti al­mennings á Seðla­bankanum. Hann hefur árum saman gagn­rýnt bankann fyrir að halda vöxtum of háum og hótað að fjar­lægja Jerome Powell banka­stjóra, þó án árangurs hingað til.

Demókratar líta hins vegar á málið sem valdníðslu. Eliza­beth War­ren öldunga­deildarþing­maður kallar að­gerðina „valdarán sem brýtur gegn lögum um Seðla­bankann“ og segist telja að dómstólar muni ógilda brott­reksturinn.

Fjár­mála­markaðir brugðust við með varfærni. Bandaríkja­dalur veiktist lítil­lega og ávöxtunar­krafa langtíma­skulda­bréfa hækkaði lítil­lega, sem sýnir að fjár­festar meta málið sem hug­san­legan áhættuþátt fyrir sjálf­stæði peninga­stefnunnar og framtíðar­vexti.

Ef Trump tækist að fjar­lægja Cook fengi hann tækifæri til að skipa í hennar stað seðla­banka­stjóra sem deilir hans af­stöðu um vaxtalækkanir.

Fyrir eru tveir seðla­banka­stjórar sem Trump skipaði á fyrsta kjörtíma­bili sínu, og ný­lega til­nefndi hann Stephen Miran, náinn ráðgjafa, til að fylla sæti sem losnaði þegar Adriana Kugler sagði af sér.

Með meiri­hluta í bankaráðinu gæti Trump haft aukin áhrif á bæði vaxta­stefnu og skipan seðla­banka­stjóra í 12 svæðis­bundnum seðla­bönkum, sem einnig hafa at­kvæðis­rétt í vaxtaákvörðunum.

Lisa Cook hefur þegar til­kynnt að hún muni halda áfram störfum á meðan lög­fræðingar hennar undir­búa málsókn.

Ef brott­reksturinn verður kærður má búast við að dómstólar skeri úr um grund­vallar­spurningu: hversu langt nær fram­kvæmdar­valdið gagn­vart sjálf­stæði Seðla­bankans í Bandaríkjunum?

Niður­staðan gæti haft áhrif á peninga­stefnu, fjár­mála­markaði og trúverðug­leika Bandaríkjanna í alþjóð­legu fjár­mála­kerfi um ókomin ár.