Ágreiningur forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og Seðlabanka Bandaríkjanna (Fed) náði nýju hámarki í gær þegar Trump tilkynnti að hann hefði rekið Lisa Cook, sem var skipuð í stjórn seðalbankans af Joe Biden árið 2022.
Hann sakar Cook um að hafa veitt rangar upplýsingar um húsnæðislánumsóknir sínar árið 2021 en hún neitar sök og segist ekki ætla að segja af sér.
Trump birti bréf á samfélagsmiðlum þar sem hann segist hafa „næg rök“ til að fjarlægja Cook úr embætti.
Ásakanirnar byggjast á yfirlýsingum Bill Pulte, yfirmanns Federal Housing Finance Agency, sem heldur því fram að Cook hafi lýst tveimur fasteignum sem sínu aðalheimili í tveimur umsóknum sem sendar voru inn með tveggja vikna millibili
Cook svaraði harðlega og sagði forsetann hvorki hafa vald né lagastoð til að reka hana.
Lögmaður hennar, Abbe Lowell, kallar aðgerðirnar „ólögmætar“ og segist munu leita allra leiða til að stöðva þær.
Enginn seðlabankastjóri hefur áður verið rekinn úr starfi af forseta Bandaríkjanna frá stofnun bankans árið 1913.
Lögum samkvæmt má aðeins fjarlægja meðlimi bankaráðsins „af gildri ástæðu“ og sérfræðingar telja að Trump þurfi að sanna bæði að brot hafi átt sér stað og að þau teljist veruleg til að vinna slíkt mál fyrir dómstólum.
Hæstiréttur hefur nýlega dregið úr vernd starfsmanna sjálfstæðra stofnana, en í fyrra benti dómstóllinn þó á að seðlabankastjórar njóti líklega meiri verndar en starfsmenn annarra stofnana.
Lögfræðingar telja því að málið gæti skapað mikilvægt fordæmi um mörk framkvæmdarvaldsins gagnvart sjálfstæði Seðlabankans.
Forsetinn segir að aðgerðir sínar snúi að trausti almennings á Seðlabankanum. Hann hefur árum saman gagnrýnt bankann fyrir að halda vöxtum of háum og hótað að fjarlægja Jerome Powell bankastjóra, þó án árangurs hingað til.
Demókratar líta hins vegar á málið sem valdníðslu. Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður kallar aðgerðina „valdarán sem brýtur gegn lögum um Seðlabankann“ og segist telja að dómstólar muni ógilda brottreksturinn.
Fjármálamarkaðir brugðust við með varfærni. Bandaríkjadalur veiktist lítillega og ávöxtunarkrafa langtímaskuldabréfa hækkaði lítillega, sem sýnir að fjárfestar meta málið sem hugsanlegan áhættuþátt fyrir sjálfstæði peningastefnunnar og framtíðarvexti.
Ef Trump tækist að fjarlægja Cook fengi hann tækifæri til að skipa í hennar stað seðlabankastjóra sem deilir hans afstöðu um vaxtalækkanir.
Fyrir eru tveir seðlabankastjórar sem Trump skipaði á fyrsta kjörtímabili sínu, og nýlega tilnefndi hann Stephen Miran, náinn ráðgjafa, til að fylla sæti sem losnaði þegar Adriana Kugler sagði af sér.
Með meirihluta í bankaráðinu gæti Trump haft aukin áhrif á bæði vaxtastefnu og skipan seðlabankastjóra í 12 svæðisbundnum seðlabönkum, sem einnig hafa atkvæðisrétt í vaxtaákvörðunum.
Lisa Cook hefur þegar tilkynnt að hún muni halda áfram störfum á meðan lögfræðingar hennar undirbúa málsókn.
Ef brottreksturinn verður kærður má búast við að dómstólar skeri úr um grundvallarspurningu: hversu langt nær framkvæmdarvaldið gagnvart sjálfstæði Seðlabankans í Bandaríkjunum?
Niðurstaðan gæti haft áhrif á peningastefnu, fjármálamarkaði og trúverðugleika Bandaríkjanna í alþjóðlegu fjármálakerfi um ókomin ár.