Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkja­for­seta um að reyna að reka Lisa Cook, seðla­banka­stjóra í stjórn bandaríska Seðla­bankans, hefur þegar haft áhrif á væntingar fjár­festa um vaxta­stig og verðbólguþróun.

Markaðir gera nú ráð fyrir lægri stýri­vöxtum til skamms tíma en hærri verðbólgu og vaxta­stigi þegar fram í sækir, eftir því sem ótti eykst við pólitíska íhlutun í störf Seðla­bankans.

Munurinn á ávöxtunar­kröfu tveggja og þrjátíu ára ríkis­skulda­bréfa í Bandaríkjunum jókst á þriðju­dag í 1,25 pró­sentu­stig, en munurinn hefur ekki verið jafn mikill í þrjú ár.

Ávöxtunar­krafan á tveggja ára bréfin féll í 3,69 pró­sent en sú þrjátíu ára hækkaði tíma­bundið í 4,91 pró­sent áður en hún lækkaði lítil­lega síðar um daginn.

Þessi breyting endur­speglar væntingar um að seðal­bankinn kunni að neyðast til að lækka vexti fyrr en markaðir höfðu áður gert ráð fyrir, vegna pólitísks þrýstings, en að hækkanir muni fylgja síðar þegar verðbólga eykst á ný.

Mari­eke Blom, aðal­hag­fræðingur ING banka, segir við FT að „ef þetta tekst verði það högg fyrir sjálf­stæði Seðla­bankans sem muni kosta al­menning gríðar­lega með hærri verðbólgu og hærri vöxtum til lengri tíma.“

Trump hefur mánuðum saman gagn­rýnt bæði Jay Powell seðla­banka­stjóra og Cook og sakað þau um að halda of fast við háa vexti sem hann telur kæfa hag­kerfið.

Til­raun hans til að víkja Cook úr em­bætti er sögð for­dæma­laus og gæti orðið upp­haf að löngu réttar­haldi þar sem skera þyrfti úr um hvort for­setinn hafi laga­legt vald til slíks inn­grips.

Fram að þessu hefur sjálf­stæði Seðla­banka Bandaríkjanna verið einn af horn­steinum efna­hags­stefnu Vestur­landa, þar sem óháðar vaxta­að­gerðir hafa átt að tryggja langtímastöðug­leika, jafn­vel þótt þær séu óvinsælar til skamms tíma.

Áhrif á gjald­miðla og áhættuálag

Bandaríkja­dalur féll um 0,3 pró­sent á móti helstu gjald­miðlum, þar á meðal evru og pundinu, eftir fregnirnar.

Hann er nú meira en 9 pró­sentum lægri en í árs­byrjun vegna viðvarandi óvissu um efna­hags­stefnu Trump og áhrif hennar á við­skipta­jöfnuð og skuldastöðu ríkisins.

Fraser Lundi­e, hjá Aviva Investors, sagði að „óvissa um stofnana­legt sjálf­stæði og pólitísk af­skipti af peninga­mála­stefnu leiði jafnan til veikara gjald­miðils, hærra áhættuálags á langtíma­skuldir og meiri sveiflna í vaxta­mun milli skamms og langs tíma.“

Hag­fræðingar Deutsche Bank segja að að­gerðir Trump séu skýrasta dæmið hingað til um breytta tíma, þar sem peninga­mála­stefna Seðla­bankans víki smám saman fyrir þörfum ríkis­sjóðs á að halda vaxta­kostnaði niðri til að mæta sí­vaxandi skuldum.

„Það sem kemur mest á óvart er að markaðir virðast ekki hafa meiri áhyggjur af þessari þróun,“ sagði Geor­ge Sara­velos aðal­hag­fræðingur bankans og taldi fjár­festa sýna óeðli­lega mikla bjartsýni miðað við áhættuna.