Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að reyna að reka Lisa Cook, seðlabankastjóra í stjórn bandaríska Seðlabankans, hefur þegar haft áhrif á væntingar fjárfesta um vaxtastig og verðbólguþróun.
Markaðir gera nú ráð fyrir lægri stýrivöxtum til skamms tíma en hærri verðbólgu og vaxtastigi þegar fram í sækir, eftir því sem ótti eykst við pólitíska íhlutun í störf Seðlabankans.
Munurinn á ávöxtunarkröfu tveggja og þrjátíu ára ríkisskuldabréfa í Bandaríkjunum jókst á þriðjudag í 1,25 prósentustig, en munurinn hefur ekki verið jafn mikill í þrjú ár.
Ávöxtunarkrafan á tveggja ára bréfin féll í 3,69 prósent en sú þrjátíu ára hækkaði tímabundið í 4,91 prósent áður en hún lækkaði lítillega síðar um daginn.
Þessi breyting endurspeglar væntingar um að seðalbankinn kunni að neyðast til að lækka vexti fyrr en markaðir höfðu áður gert ráð fyrir, vegna pólitísks þrýstings, en að hækkanir muni fylgja síðar þegar verðbólga eykst á ný.
Marieke Blom, aðalhagfræðingur ING banka, segir við FT að „ef þetta tekst verði það högg fyrir sjálfstæði Seðlabankans sem muni kosta almenning gríðarlega með hærri verðbólgu og hærri vöxtum til lengri tíma.“
Trump hefur mánuðum saman gagnrýnt bæði Jay Powell seðlabankastjóra og Cook og sakað þau um að halda of fast við háa vexti sem hann telur kæfa hagkerfið.
Tilraun hans til að víkja Cook úr embætti er sögð fordæmalaus og gæti orðið upphaf að löngu réttarhaldi þar sem skera þyrfti úr um hvort forsetinn hafi lagalegt vald til slíks inngrips.
Fram að þessu hefur sjálfstæði Seðlabanka Bandaríkjanna verið einn af hornsteinum efnahagsstefnu Vesturlanda, þar sem óháðar vaxtaaðgerðir hafa átt að tryggja langtímastöðugleika, jafnvel þótt þær séu óvinsælar til skamms tíma.
Áhrif á gjaldmiðla og áhættuálag
Bandaríkjadalur féll um 0,3 prósent á móti helstu gjaldmiðlum, þar á meðal evru og pundinu, eftir fregnirnar.
Hann er nú meira en 9 prósentum lægri en í ársbyrjun vegna viðvarandi óvissu um efnahagsstefnu Trump og áhrif hennar á viðskiptajöfnuð og skuldastöðu ríkisins.
Fraser Lundie, hjá Aviva Investors, sagði að „óvissa um stofnanalegt sjálfstæði og pólitísk afskipti af peningamálastefnu leiði jafnan til veikara gjaldmiðils, hærra áhættuálags á langtímaskuldir og meiri sveiflna í vaxtamun milli skamms og langs tíma.“
Hagfræðingar Deutsche Bank segja að aðgerðir Trump séu skýrasta dæmið hingað til um breytta tíma, þar sem peningamálastefna Seðlabankans víki smám saman fyrir þörfum ríkissjóðs á að halda vaxtakostnaði niðri til að mæta sívaxandi skuldum.
„Það sem kemur mest á óvart er að markaðir virðast ekki hafa meiri áhyggjur af þessari þróun,“ sagði George Saravelos aðalhagfræðingur bankans og taldi fjárfesta sýna óeðlilega mikla bjartsýni miðað við áhættuna.