Innrás Rússlands í Úkraínu og viðskiptaþvinganir Vesturlanda í kjölfarið hafa nú þegar haft víðtækar afleiðingar, rúmum mánuði eftir að stríðið hófst. Mikill órói hefur til að mynda átt sér stað á orkumörkuðum, en Rússland er einn stærsti gas- og olíuframleiðandi í heimi.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa skipað starfshóp sem eigi að halda utan um það sem heiti nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu á hættutímum. Hópurinn hafi það hlutverk að skoða bæði upplýsingar um birgðastöðu á hverjum tíma og hvernig eigi að bregðast við ef einhver brestur verður þar á.
Hún segir ljóst að mikilvægt sé að öflugir milliríkjasamningar séu til staðar. Á ófriðartímum verði það mjög áþreifanlegt að fæðuöryggi sé ekki sjálfsagt. „Landbúnaðarháskólinn vinnur núna að drögum að fæðuöryggisstefnu sem eiga að liggja fyrir í næsta mánuði. Annars vegar erum við að ræða lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, sem er algjört grundvallaratriði, og hins vegar þurfum við að huga að samspili matvæla og þróunar efnahagsmála. Það er algjör grundvallarþáttur í þróun efnahagsmála hvernig hrávörukeðjum heimsins reiðir af og þá auðvitað hversu langan tíma þessi ófriður og þetta stríðsástand varir," segir Svandís.
Úkraína er einn helsti útflytjandi heims á hveiti og annarri kornvöru, til að mynda sólblómafræjum. Verð á hveiti hefur hækkað umtalsvert frá því að innrás Rússlands hófst og ljóst er að erfitt verður fyrir Úkraínu að halda uppi framleiðslu og flytja út korn dragist stríðið á langinn. Telur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, að ástandið gæti valdið matvælaskorti víða um heim og sérstaklega ógnað fæðuöryggi í Afríku.
Svandís segir áhrif stríðsins á hrávörur og aðföng í matvælaframleiðslu helst koma fram í gegnum hækkun á kornvöru og olíufræjum, sérstaklega hveiti og sólblómafræjum. „Í dag er lítil hætta á að það skapist skortur á hveiti í okkar heimshluta og er staðan mun alvarlegri fyrir fátækari lönd sem reiða sig miklu meira á kornvöru í sínum matvælum, en þar eru kornvörur líka miklu stærri hluti af útgjöldum almennings," segir Svandís.
Hún segir ekki hafa verið tekna ákvörðun um hvort koma eigi upp opinberum birgðageymslum hér á landi fyrir þessar vörur. „Við höfum verið í miklum samskiptum við hagsmunaaðila sem tengjast matvælum alveg frá upphafi stríðsins. Þar hefur komið fram að innflutningsaðilar eru bæði farnir að kaupa meira magn og líka leitast við að tryggja framboð til landsins með framvirkum samningum."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .