Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að tvöfalda niðurgreiðslur á orkukostnaði til lægsta tekjuhópsins vegna hækkandi húshitunarkostnaðar í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Bloomberg greinir frá.

Fjárstuðningurinn, sem danska ríkið samþykkti upphaflega fyrir innrásina í febrúar, nemur nú alls 2 milljörðum danskra króna, eða um 38 milljarða íslenskra króna. Í þessu felst m.a. einskiptis skattfrjáls greiðsla í ágúst og september að fjárhæð sex þúsund danskra króna, eða sem nemur tæplega 115 þúsund íslenskra króna, til meira en 400 þúsund heimila með undir 12,4 milljónir íslenskra króna í árlegar tekjur.

„Evrópa hefur orðið fyrir jarðeldsneytisorkukrísu. Stríðið í Úkraínu hefur skapað óvissu um orkuverð og búist er við áframhaldandi verðhækkunum. Þetta undirstrikar þörfina á að draga úr notkun á jarðgasi,“ segir í tilkynningu dönsku ríkisstjórnarinnar.