Lands­bréf hf., dóttur­félag Lands­bankans sem sér­hæfir sig í sjóðastýringu og eignastýringarþjónustu, skilaði hagnaði upp á tæpar 457 milljónir króna eftir skatta á fyrri hluta ársins 2025.

Þetta er aukning frá rúmum 437 milljónum króna á sama tíma­bili árið áður og endur­speglar sterkan rekstur félagsins þrátt fyrir áfram­haldandi óvissu á fjár­málamörkuðum.

Sam­kvæmt ný­birtum árs­hluta­reikningi námu hreinar rekstrar­tekjur félagsins 1.142 milljónum króna á tíma­bilinu, saman­borið við 1.084 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2024.

Auknar þóknana­tekjur af stýringu verðbréfa- og sér­hæfðra sjóða höfðu þar mest áhrif, auk jákvæðrar þróunar á skulda­bréfa­mörkuðum.

Arð­greiðsla lækkar eigið fé

Eigið fé Lands­bréfa var 3.847 milljónir króna í lok júní en nam 4.390 milljónum króna í árs­lok 2024. Lækkunin skýrist að mestu af því að félagið greiddi móðurfélagi sínu, Lands­bankanum, 1.000 milljóna króna arð­greiðslu í maí.

Þrátt fyrir það hélt félagið áfram að vera mjög vel fjár­magnað með eigin­fjár­hlut­fall upp á 82,94 pró­sent í lok tíma­bilsins.

Í lok árs voru 22 stöðu­gildi í Lands­bréfum hf. og árs­verkin voru 22,0. Heildar­launa­kostnaður á fyrri árs­helmingi var tæpar 391 milljón króna en var á sama tíma­bili árið áður tæpar 356 milljónir króna.

Helgi Þór Ara­son fram­kvæmda­stjóri Lands­bréfa segir að af­koman endur­spegli bæði sterkan rekstur og breyti­legar markaðsaðstæður.

„Rekstur Lands­bréfa gekk vel á tíma­bilinu og hagnaður endur­speglar traustan rekstur félagsins. Markaðsaðstæður héldu áfram að vera krefjandi á fyrri hluta ársins, einkum á inn­lendum hluta­bréfa­markaði. Verðbólga hefur komið hægar niður en vonir stóðu til og vaxta­stig hefur haldist hátt. Það er sam­eigin­legt verk­efni allra að stuðla að lægri verðbólgu til að tryggja að hag­kerfið nái mjúkri lendingu og tryggja þannig stöðug­leika til framtíðar. Ávöxtun sjóða Lands­bréfa var mis­góð á tíma­bilinu eftir tegundum sjóða en vel ásættan­leg í saman­burði við helstu sam­keppnisaðila. Lands­bréf hafa haldið áfram að treysta stöðu sína sem leiðandi sjóðastýringar­fyrir­tæki á Ís­landi. Félagið rekur sem fyrr fjöl­breytt úr­val verðbréfa­sjóða og sér­hæfðra sjóða auk þess sem félagið sinnir af­mörkuðum eignastýringar­verk­efnum fyrir líf­eyris­sjóði og fleiri stærri fjár­festa.“

Alls voru um 21 þúsund ein­staklingar og lögaðilar með fjár­muni í sjóðum Lands­bréfa í lok júní 2025. Eignir í stýringu voru sam­tals 567 milljarðar króna í lok júní 2025 saman­borið við 543 milljarða króna í lok árs 2024.