Skipta­stjórar þrota­bús raf­mynta­kaup­hallarinnar FTX hafa birt skrá yfir eignir þrota­búsins sem þeim hefur tekist að endur­heimta.

Eignirnar eru að and­virði sjö milljarða banda­ríkja­dala eða ríf­lega 940 milljarða ís­lenskra króna sam­kvæmt gögnum sem var skilað inn til dóm­stóla í gær.

Meðal eigna sem skipta­stjórum tókst að endur­heimta var svo­kallaðar A-raf­myntir að and­virði 3,4 milljarða dala. Um er að ræða safn af helstu gjald­gengu raf­myntum af markaði en í búinu eru 1,1 milljarðar dala af raf­myntinni solana og Bitcoin að and­virði 560 milljónir dala.

Þá eru í eigna­safninu 38 fast­eignir á Bahama­eyjum að and­virði 199 milljóna dala. Flestar eignirnar eru við Albany-höfnina í Nassau þar sem stofnandi FTX, Sam Bank­man-Fri­ed, bjó meðal annars í þak­í­búð.

Auk þess eru um 2,6 milljarðar Banda­ríkja­dalir í hand­bæru fé sem yfir­völd gerðu upp­tækt þegar Bank­man-Fri­ed var hand­tekinn.

Sam­kvæmt dóm­skjölunum stefnir þrota­búið að því að selja raf­myntirnar hægt og ró­lega á næstu vikum en á­ætlað er að ekki verði seldar raf­myntir fyrir meira en 200 milljónir banda­ríkja­dala á viku til að lækka ekki virði þeirra.

Enn er spurning um svo­kallaða B-raf­myntir sem telja 1 milljarð dala en um er að ræða raf­myntir sem eru á minni mörkuðum og eru ekki jafn verð­mætar og A-raf­myntirnar.

Þrota­búið á eftir að á­kveða hvað gerist við fjár­festingar­eignir FTX en fyrir­tækið hafði fjár­fest í ýmsum sprota­fyrir­tækjum fyrir 4,5 milljarða dala. Stærsti á­hugi kröfu­hafa er á hlut FTX í banda­ríska gervi­greindar­fyrir­tækinu Ant­hropic en um er að ræða eina verð­mætustu eign FTX.

Réttar­höld yfir Bank­man Fri­ed hefjast 3. októ­ber.