Skiptastjórar þrotabús rafmyntakauphallarinnar FTX hafa birt skrá yfir eignir þrotabúsins sem þeim hefur tekist að endurheimta.
Eignirnar eru að andvirði sjö milljarða bandaríkjadala eða ríflega 940 milljarða íslenskra króna samkvæmt gögnum sem var skilað inn til dómstóla í gær.
Meðal eigna sem skiptastjórum tókst að endurheimta var svokallaðar A-rafmyntir að andvirði 3,4 milljarða dala. Um er að ræða safn af helstu gjaldgengu rafmyntum af markaði en í búinu eru 1,1 milljarðar dala af rafmyntinni solana og Bitcoin að andvirði 560 milljónir dala.
Þá eru í eignasafninu 38 fasteignir á Bahamaeyjum að andvirði 199 milljóna dala. Flestar eignirnar eru við Albany-höfnina í Nassau þar sem stofnandi FTX, Sam Bankman-Fried, bjó meðal annars í þakíbúð.
Auk þess eru um 2,6 milljarðar Bandaríkjadalir í handbæru fé sem yfirvöld gerðu upptækt þegar Bankman-Fried var handtekinn.
Samkvæmt dómskjölunum stefnir þrotabúið að því að selja rafmyntirnar hægt og rólega á næstu vikum en áætlað er að ekki verði seldar rafmyntir fyrir meira en 200 milljónir bandaríkjadala á viku til að lækka ekki virði þeirra.
Enn er spurning um svokallaða B-rafmyntir sem telja 1 milljarð dala en um er að ræða rafmyntir sem eru á minni mörkuðum og eru ekki jafn verðmætar og A-rafmyntirnar.
Þrotabúið á eftir að ákveða hvað gerist við fjárfestingareignir FTX en fyrirtækið hafði fjárfest í ýmsum sprotafyrirtækjum fyrir 4,5 milljarða dala. Stærsti áhugi kröfuhafa er á hlut FTX í bandaríska gervigreindarfyrirtækinu Anthropic en um er að ræða eina verðmætustu eign FTX.
Réttarhöld yfir Bankman Fried hefjast 3. október.