Icelandair mun segja upp fjölda starfsfólks og ráðast í endurskipulagningu á félaginu áður en þessi mánuður er á enda. Þetta kemur fram í tilkynningu til markaðarins.

Sem kunnugt er hefur ferðaþjónustugeirinn horft fram á sviðna jörð eftir ferðabönn í kjölfar veirufaraldursins. Sem stendur samanstendur flugáætlun Icelandair að örfáum flugum í viku hverri.

„Framkvæmdastjórn Icelandair hefur hafið undirbúning fyrir það að um nokkuð skeið muni starfsemi félagsins verða í lágmarki. Umfangsmiklar aðgerðir eru því á döfinni í þessum mánuði sem munu fela í sér umtalsverða fækkun starfsmanna,“ segir í tilkynningunni.

Á sama tíma verður lögð áhersla á að halda uppi grunnstarfsemi á öllum sviðum til þess að tryggja þann sveigjanleika sem þarf til að félagið geti brugðist hratt við um leið og markaðir opnast á ný að því fram kemur í tilkynningunni.

„Við þurfum að aðlaga starfsemi Icelandair Group þeim veruleika sem blasir við. Það er gríðarleg óvissa framundan og því miður eru uppsagnir starfsfólks óumflýjanlegar til að komast í gegnum þetta krefjandi tímabil. Við leggjum áherslu á að tryggja grunnstarfsemi félagsins til að geta komist hratt af stað aftur og vonumst auðvitað til að geta boðið stærstum hluta þeirra starfsmanna sem um ræðir vinnu aftur um leið og aðstæður batna,“ er haft eftir forstjóranum Boga Nils Bogasyni.