Golfskálinn réð á dögunum Rögnvald Magnússon sem nýjan forstöðumann ferðaþjónustu. Hann er PGA-golfkennari með áralanga reynslu í golfkennslu en hann lauk PGA-námi árið 2012 og hefur starfað sem kennari og meðeigandi hjá Golf Akademíunni í Oddi síðan 2016.
Ráðning Rögnvaldar er liður í áformum Golfskálans um að bæta þjónustu félagsins en Golfskálinn starfrækir bæði sérverslun og golfvörur ásamt ferðaskrifstofu fyrir kylfinga.
Kári Steinn Karlsson er framkvæmdastjóri Golfskálans en Stamina-leitarsjóður, sem var stofnaður af Kára, tók við rekstri Golfskálans fyrr í sumar. Eignarhald félagsins er nú í höndum Kára og hóps fjárfesta en Kári tók þá við sem framkvæmdastjóri í júní.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að Golfskálinn hafi ætíð séð fyrir rótgrónum og heiðarlegum rekstri og að áætlun hans hafi verið að halda áfram að byggja félagið upp á þeim góða grunni.
„Við erum nú byrjuð að stíga fyrstu skrefin í að lyfta versluninni aðeins upp en þó án þess að snúa henni á hvolf. Það er náttúrulega ákveðinn sjarmi í versluninni og fólk treystir henni líka vel þar sem hún er svo vinaleg. Það er samt margt sem má breyta og bæta og samhliða því viljum við líka uppfæra vefsíðuna okkar.“
Hann segir að Rögnvaldur, sem mun hefja störf í haust, komi til með að leggja meiri áherslu á ferðaþjónustu fyrirtækisins en Golfskálinn hefur undanfarin ár boðið upp á fimm til sex kjarnaáfangastaði á suðurhluta Spánar.
„Við viljum aðeins krydda ferðirnar og erum að horfa aðeins út fyrir Spán. Það eru nokkrir áfangastaðir í Suður-Evrópu sem við erum að skoða en við ætlum þó að halda þeim vinsælustu áfangastöðum sem bjóða bæði upp á regluleg flug og húsnæði.“
Golfskálinn ætlar þá líka að efla golfskólann en þær kennsluferðir hafa reynst ein vinsælasta vara fyrirtækisins. Vandamálið hefur þó verið að skólinn virðist vera of vinsæll og hafa færri komist að en vilja.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.