Verðbréfafyrirtækið ACRO verðbréf, sem hét áður Íslenskir fjárfestar, skilaði 349 milljóna króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári en til samanburðar nam hagnaður félagsins 202 milljónum árið 2020. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Viðskiptaþóknanir ACRO jukust um helming á milli ára og námu 844 milljónum króna árið. Félagið hefur vaxið hratt á síðustu árum og hafa þóknanatekjur þess meira en þrefaldast frá árinu 2018.

Í júní 2021 veitti Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands verðbréfafyrirtækinu starfsheimild fyrir eignastýringarþjónustu. Skömmu síðar var nafni fyrirtækisins breytt í ACRO verðbréf.

Meðaltal stöðugilda á árinu, miðað við heilsársstörf, fjölgaði úr 6,7 í 8,9 á milli ára. Laun og launatengd gjöld námu 189 milljónum á síðasta ári samanborið við 152 milljónir árið 2020.

Eignir félagsins í árslok 2021 voru bókfærðar á 563 milljónir og eigið fé var 421 milljón. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði út 255 milljónir í arð í ár.

Tómas Karl Aðalsteinsson er stærsti hluthafi ACRO með 30% hlut. Sigurður Heiðar Jónsson, Jónas Guðmundsson, Þorbjörn Atli Sveinsson, Gunnar Freyr Gunnarsson og Hannes Árdal, framkvæmdastjóri félagsins, eiga einnig 10%-15% hlut hver.