Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var efstur í flokki hagsmunasamtaka og aðila vinnumarkaðarins með tæpar 9,9 milljónir króna í reiknuð mánaðarlaun sem miða við greitt útsvar.
Landsbjörg hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllun fjölmiðla um áætluð laun Kristjáns Þórs í fyrra.
„Rétt [er að] fram komi að stærsti hluti þessara reiknuðu launa eru úttekt séreignasparnaðar Kristjáns síðustu 35 ára, sem Kristján leysti út á síðasta ári, líkt og heimilt er við sextugs aldur,“ segir í tilkynningunni.
„Hér er dæmi um hve villandi það er þegar laun eru reiknuð til baka út frá skattgreiðslum, en við úttekt séreignasparnaðar greiddi hann að sjálfsögðu þá skatta sem honum bar, sem svo koma fram í álagningarskrá skattyfirvalda.“
Landsbjörg segir félagið greiða laun í samræmi við stöðu sína sem stærstu samtök sjálfboðaliða í landinu.
„Þau eru sanngjörn en eiga talsvert í land með að komast inn á topp tíu listann, hvað þá að toppa hann.“
Þess má geta að Kristján Þór var með 1,7 milljónir króna í mánaðarlaun árið 2023, samkvæmt Tekjublaðinu sem kom út fyrir ári síðan.