Ára­tugum saman hefur Citi Services verið arð­bærasta eining banka­sam­stæðu Citigroup en um helmingur af öllum hagnaði fé­lagsins kemur þaðan.

Bankinn hefur aldrei al­menni­lega greint opin­ber­lega frá því hvað deildin ná­kvæm­lega gerir en stefnt að því að breyta því á fjár­festa­degi bankans á eftir.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hafa starfs­menn deildarinnar sagt saman frasann árum saman er þeir eru spurðir um hvað City Services gerir: „Við erum með yfir­sýn yfir fjár­hags­legu pípurnar.“

„Hin ei­lífa spurning: Hvað gerum við eigin­lega?“

Deildin sér um eignar­stýringu og greiðslu­þjónustu fyrir efnuðustu við­skipta­vini Citigroup. Í ein­földu út­skýringu bankans er hún sögð hjálpa þeim með eigna­stýringu, hluta­bréfa­við­skipti, stofna reikninga, inn­heimta greiðslur og borga laun á heims­vísu.

En hingað til hefur ekki verið mikið meira vitað um starf­semi deildarinnar og af hverju hún sé svona arð­bær.

Citi Services skilaði 1,52 milljarða dala hagnaði á fyrsta ársfjórðungi 2024 sem er meiri hagnaður en af fjárfestingabanka- og einkabankastarfsemi Citigroup. Samsvarar það um 211 milljarða króna hagnaði á gengi dagsins.

„Hin ei­lífa spurning: Hvað gerum við eigin­lega?“ segir Okan Pekin, yfir­maður verð­bréfa­deildar Citi Services, í sam­tali við WSJ.

Á­kvörðun Citigroup að veita inn­sýn inn í deildina síðar í dag er hluti af við­snúnings­stefnu for­stjórans Jane Fraser. Hún telur að með því að opna dyrnar inn í Citi Services sjái fjár­festar hvers vegna deildin sé svona arð­bær og muni það ýta hluta­bréfa­verði fé­lagsins upp á við.

Á síðasta fjár­festa­degi Citigroup árið 2022 var stiklað á stóru um Citi Services og farið laus­lega yfir reksturinn á tuttugu mínútum.

„Þegar við tölum um Citigroup sem al­þjóð­legan banka þá er þetta [Citi services] á­stæðan,” segir Jane Fraser.

Um 5000 af stærstu al­þjóð­legu fyrir­tækjum og fjár­festum heims eru við­skipta­vinir Citi Services en banda­ríska ríkið og sendi­ráð Banda­ríkjanna nýta sér einnig þjónustuna til að færa fjármuni milli landa.

Citigroup er með net sem nær til 190 landa heimsins og því hefur þessi al­þjóð­lega deild verið afar mikil­væg fyrir al­þjóð­leg fyrir­tæki sem starfa í mörgum löndum.

Sam­kvæmt greiningu Mike Mayo er deildin krúnu­djásn Citi en hann verð­metur virði hennar er um 90 til 120 milljarðar Banda­ríkja­dala. Markaðs­virði Citigroup sam­stæðunnar er 114 milljarðar dala.