Áratugum saman hefur Citi Services verið arðbærasta eining bankasamstæðu Citigroup en um helmingur af öllum hagnaði félagsins kemur þaðan.
Bankinn hefur aldrei almennilega greint opinberlega frá því hvað deildin nákvæmlega gerir en stefnt að því að breyta því á fjárfestadegi bankans á eftir.
Samkvæmt The Wall Street Journal hafa starfsmenn deildarinnar sagt saman frasann árum saman er þeir eru spurðir um hvað City Services gerir: „Við erum með yfirsýn yfir fjárhagslegu pípurnar.“
„Hin eilífa spurning: Hvað gerum við eiginlega?“
Deildin sér um eignarstýringu og greiðsluþjónustu fyrir efnuðustu viðskiptavini Citigroup. Í einföldu útskýringu bankans er hún sögð hjálpa þeim með eignastýringu, hlutabréfaviðskipti, stofna reikninga, innheimta greiðslur og borga laun á heimsvísu.
En hingað til hefur ekki verið mikið meira vitað um starfsemi deildarinnar og af hverju hún sé svona arðbær.
Citi Services skilaði 1,52 milljarða dala hagnaði á fyrsta ársfjórðungi 2024 sem er meiri hagnaður en af fjárfestingabanka- og einkabankastarfsemi Citigroup. Samsvarar það um 211 milljarða króna hagnaði á gengi dagsins.
„Hin eilífa spurning: Hvað gerum við eiginlega?“ segir Okan Pekin, yfirmaður verðbréfadeildar Citi Services, í samtali við WSJ.
Ákvörðun Citigroup að veita innsýn inn í deildina síðar í dag er hluti af viðsnúningsstefnu forstjórans Jane Fraser. Hún telur að með því að opna dyrnar inn í Citi Services sjái fjárfestar hvers vegna deildin sé svona arðbær og muni það ýta hlutabréfaverði félagsins upp á við.
Á síðasta fjárfestadegi Citigroup árið 2022 var stiklað á stóru um Citi Services og farið lauslega yfir reksturinn á tuttugu mínútum.
„Þegar við tölum um Citigroup sem alþjóðlegan banka þá er þetta [Citi services] ástæðan,” segir Jane Fraser.
Um 5000 af stærstu alþjóðlegu fyrirtækjum og fjárfestum heims eru viðskiptavinir Citi Services en bandaríska ríkið og sendiráð Bandaríkjanna nýta sér einnig þjónustuna til að færa fjármuni milli landa.
Citigroup er með net sem nær til 190 landa heimsins og því hefur þessi alþjóðlega deild verið afar mikilvæg fyrir alþjóðleg fyrirtæki sem starfa í mörgum löndum.
Samkvæmt greiningu Mike Mayo er deildin krúnudjásn Citi en hann verðmetur virði hennar er um 90 til 120 milljarðar Bandaríkjadala. Markaðsvirði Citigroup samstæðunnar er 114 milljarðar dala.