Trausti Árnason, framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Vélfags á Akureyri, hefur sagt starfi sínu lausu og níu starfsmönnum félagsins til viðbótar hefur verið sagt upp.
Ivan Nicolai Kaufmann, meirihlutaeigandi Vélfags, staðfesti þetta við Morgunblaðið. Fram kemur að mögulega verði um frekari uppsagnir að ræða, en það skýrist á næstu dögum. Starfsmenn félagsins voru 33 talsins fyrir uppsagnirnar.
Fyrir rúmum mánuði síðan var greint frá því að Vélfag standi frammi fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum vegna fyrrverandi eiganda þess, rússneska útgerðarfélagsins Norebo sem er talið tengjast svonefndum skuggaflota Rússa. Viðskiptaþvinganirnar eru hluti af aðgerðum Íslands, Noregs og ESB gegn rússneskum fyrirtækjum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Ivan Nivolai Kaufman, núverandi meirihlutaeigandi Vélfags heldur því fram að Norebo hafi hvorki tengsl við né aðkomu að rekstri Vélfags í dag.
Ivan, sem á 82% í Vélfagi í gegnum félag skráð í Hong Kong, sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að fyrirtækið sigli úfinn sjó vegna viðskiptaþvingana. Hann gagnrýndi jafnframt utanríkisráðuneytið og Arion og lýsti samskiptum vegna málsins sem ófaglegum. Hann hét því að gera allt sem hann geti til að halda félaginu gangandi.