Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerði verðbólgumælingar Hagstofu að umtalsefni á fundi ríkisstjórnar fyrr í dag. Eins og vb.is greindi frá í gær hækkaði ársverðbólga úr 9,8% í 9,9%, þvert á spár greiningaraðila. Líklega er tíðinda vænta af vettvangi ríkisstjórnar Sjálfstæðis-, Framsóknarflokks og Vinstri-Grænna um málið.

Stýrivextir hækkaðir í síðasta mánuði

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti síðast þann 22. mars, en það var í tólfta skiptið í röð sem vextir voru hækkaðir. Þeir standa nú í 7,5 prósentustigum. Í umsögnum um fjármálaáætlun ríkisstjórnar hefur m.a. verið gagnrýnt að stjórnvöld ætli sér ekki að stíga nægilega fast til jarðar í baráttu við verðbólguna. Hún muni því reynast þrálátari en ella. Þannig sagði í umsögn Samtaka atvinnulífsins að vandi ríkissjóðs sé ekki tekjuleysi, heldur óhófleg útgjöld og skortur á aðhaldi, sem hvetji til verðbólgu.

Stjórnvöld ekki aðhafst nóg

Í samtali við vb.is var haft eftir Konráð Guðjónssyni, hagfræðingi hjá Arion banka, að stjórnvöld hafi ekki lagt nóg af mörkum í baráttu við verðbólguna. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa kallað eftir ábyrgð atvinnulífsins, en forsætisráðherra hefur kallað eftir hófsemi í arðgreiðslum og álagningu. Hún hefur einnig sagt að stjórnvöld muni grípa til nauðsynlegra aðgerða í baráttu gegn verðbólgu.