Árverðsbólga í Bandaríkjunum mældist 3,1% í janúarmánuði samkvæmt gögnum frá vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Hagfræðingar vestanhafs, sem tóku þátt í könnun The Wall Street Journal, höfðu spáð því að verðbólga myndi hjaðna niður í 2,9% í mánuðinum en gögnin sýna að enn sé töluverður verðbólguþrýstingur í Bandaríkjunum.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 3,4 í desembermánuði.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í orku- og matvælageiranum, lækkaði einnig minna en spár gerðu ráð fyrir. Mældist hún 3,9% á ársgrundvelli í janúarmánuði en spár gerðu ráð fyrir 3,7%.
Jerome Powell seðlabankastjóri hefur gefið það út að vextir verði lækkaðir á árinu. Hann sagði þó beint í kjölfarið að á meðan efnahagsumsvif væru enn mikil og vinnumarkaðurinn sterkur, sé betra að halda vöxtum óbreyttum en að fara of snemma af stað.
Stýrivextir Bandaríkjanna eru á bilinu 5,25 til 5,5% og hafa ekki verið hærri í 22 ár.
Næsti fundur peningastefnunefndar Bandaríkjanna er ekki fyrr en 19.-20. mars og er von á fleiri hagtölum fyrir þann tíma.