Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um áform ríkisstjórnarinnar um mótun atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. Í umsögninni hvetur ráðið stjórnvöld til að líta til 18 liða við mótun stefnunnar, sem nálgast má hér að neðan.

Liðirnir átján falla undir þrjú „leiðarljós“ sem Viðskiptaráð telur að atvinnustefnan ætti að samanstanda af; jafnræði milli atvinnugreina, hagfelldu rekstrarumhverfi og skilvirkni starfsemi hins opinbera.

Mistök að velja einstakar atvinnugreinar

Forsætisráðuneytið tilkynnti fyrir tveimur vikum um framkvæmd samráðsferlis um áformaða atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. Jafnframt birti ráðuneytið drög að inngangi atvinnustefnunnar.

Í samráðsgátt leggur ráðuneytið fram þrjár spurningar fyrir umsagnaraðila, sem snúa að því hvaða markmið og lykilmælikvarða ætti að styðjast við, hvaða aðgerðir stjórnvöld geta gripið til og hvaða útflutningsgreinar geta vaxið mest á næstu tíu árum og náð árlegum útflutningi sem nemur tugum milljarða á ári.

Viðskiptaráð segir að stjórnvöld eigi ekki að beina sjónum sínum að einstaka greinum eða leggja sérstaka áherslu á vöxt ákveðinna geira. Frekar ættu þau að stefna að því að tryggja jafnræði milli atvinnugreina þannig að fyrirtæki geti keppt sín á milli. Markaðurinn muni á endanum skera úr um hvaða fyrirtæki skara framúr.

„Í nýlegri fræðigrein sem skoðar hvernig atvinnustefnu hefur verið beitt er niðurstaðan sú að í þróuðum hátekjuhagkerfum skilar stefna sem miðar að því að auka framleiðslugetu í ákveðnum atvinnugreinum ekki árangri. Aftur á móti geti stefna sem fer þvert á atvinnugreinar og miðar að því að efla getu í hagkerfinu í heild skilað árangri.“

Ráðið segir OECD taka undir þessi sjónarmið og benda á að að takmarkaðar sannanir séu fyrir því að stefna sem beinist sérstaklega að ákveðnum greinum sé farsæl. Aftur á móti séu svokallaðar „láréttar aðgerðir“ þvert á allar atvinnugreinar, líkt og skattaívilnanir tengdar rannsóknum og þróun, líklegri til þess að skila árangri fyrir hagkerfið í heild.

Hvað varðar lykilmælikvarða sem stjórnvöld ættu að líta til við mótun stefnunnar, hvetur Viðskiptaráð til að horft verði til mælikvarða á borð við verg landsframleiðsla á mann og framleiðni, sem séu góðir vísar að betri lífskjörum.

Tillögur Viðskiptaráðs

Meðfylgjandi eru þau 18 atriði sem Viðskiptaráð ráðleggur stjórnvöldum að horfa til við mótun atvinnustefnunnar (tekið beint upp úr umsögninni). Liðirnir falla undir leiðarljósin þrjú og eru sex talsins undir hverju þeirra.

Jafnræði milli atvinnugreina

#1: Hið opinbera hætti hefðbundum atvinnurekstri.

Til þess að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi ætti hið opinbera að draga sig úr hvers kyns atvinnurekstri sem einkaaðilar geta sinnt. Sem dæmi um rekstur sem hið opinbera ætti að draga sig úr er bankastarfsemi, fjölmiðlun, smásala áfengis og póstdreifing.

#2: Afnema sértæka skatta á einstaka atvinnugreinar, fækka undanþágum og jafna virðisaukaskattsþrepin.

Hér er átt við skatta á borð við bankaskatt, gistináttaskatt og innviðagjald. Stjórnvöld ættu að stefna að því að hafa skattkerfið einfalt og skilvirkt með fáum breiðum skattstofnum, í stað margra smárra sem ná til afmarkaðs hluta hagkerfisins og skila litlum tekjum.

#3: Fella niður alla innflutningstolla og tollkvóta.

Aðgerðin mun draga betur fram hvar Ísland hefur samkeppnisforskot og jafnframt bæta hag neytenda og fjölga valkostum fyrir þá.

#4: Starfsleyfakerfi tekið upp í veðmálum og áfengis- og veðmálaauglýsingar leyfðar samhliða.

Með því að færa lagaumgjörðina í kringum auglýsingar og veðmálastarfssemi í átt að auknu frjálsræði má tryggja að innlendum fyrirtækjum verði gert kleift að keppa við erlenda aðila á jafnræðisgrundvelli.

#5: Hætta endurgreiðslum til kvikmyndagerðar.

Sérstök niðurgreiðsla á framleiðslukostnaði ákveðinnar atvinnugreinar samrýmist ekki sjónarmiðum um jafnræði milli atvinnugreina. Stjórnvöld ættu þess vegna að leggja af sérstakt endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndaframleiðslu.

6# Hætta veitingu stofnframlaga og niðurgreiddra lána HMS.

Stjórnvöld ættu að hætta að veita húsnæðisfélögum stofnframlög og niðurgreidd lán til byggingar á almennum íbúðum. Stefnan felur í sér ógagnsæja meðgjöf með hluta húsnæðismarkaðarins, áhættutöku fyrir ríkissjóð, mismunar aðilum byggt á félagaformi og skilar ekki því framboði inn á markaðinn sem mest eftirspurn er eftir.

Hagfellt rekstrarumhverfi

#7: Afnema skaðlega annmarka á skattkerfinu.

Stjórnvöld ættu að breyta skattlagningu á fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum, þannig að hagnaður sé aðeins skattlagður við innlausn. Jafnframt ætti að afnema stimpilgjald af fasteignaviðskiptum, en það mál reyndist vinsælast af 60 málum sem Viðskiptaráð kannaði afstöðu til í aðdraganda kosninga. Einnig ætti að breyta skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattstofninn taki aðeins mið af raunávöxtun fjármagns, en ekki nafnávöxtun líkt og nú er.

#8: Tryggja að fyrirtæki hafi aðgang að orku.

Greiður aðgangur að orku er lykilþáttur í stöðugu rekstarumhverfi fyrirtækja og mikilvæg forsenda fyrir því að fyrirtæki geti vaxið og fullnýtt framleiðsluþætti sína. Aukin orkuöflun mun stuðla að vexti hagkerfisins og gera landið að ákjósanlegri fjárfestingakosti.

#9: Auka skilvirkni eftirlits.

Hið opinbera sinnir fjölbreyttu eftirliti með atvinnulífinu. Mikilvægt er að tryggja að eftirlitið sé áhættumiðað og samskipti við eftirlitsaðila séu skilvirk. Stjórnvöld gætu tryggt hagkvæmari framkvæmd eftirlitsins með aukinni útvistun til faggiltra einkarekinna skoðunaraðila.

#10: Hætta að gullhúða EES regluverk og afhúða það sem þegar hefur verið gullhúðað.

Nokkuð hefur verið um það að íslensk stjórnvöld innleiði evrópskt regluverk með meira íþyngjandi hætti en þörf er á, t.d. með því að fullnýta ekki undanþáguákvæði eða útvíkka þau mörk sem reglurnar eiga að ná til. Þetta veikir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart þeim evrópsku og gengur gegn markmiðum EES-samningsins um að sömu reglur gildi þvert á landamæri.

#11 Liðka fyrir samrunum fyrirtækja.

Einfalda og skilvirknivæða ætti ferli vegna samruna fyrirtækja, t.d. með því að hækka veltumörk og stytta lögbundna tímafresti í samrunaeftirliti. Samrunar skapa veruleg hagkvæmniáhrif, styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja og hafa jákvæð áhrif á framleiðni. Í litlum hagkerfum er sérlega mikilvægt að skapa svigrúm fyrir samruna sem styrkja stöðu innlendra fyrirtækja gagnvart alþjóðlegum keppinautum.

#12: Afnema jafnlaunavottun.

Rannsókn Hagstofunnar hefur þegar staðfest að ekki sé marktækur munur á launamun kynjanna hjá fyrirtækjum sem hafa innleitt jafnlaunavottun og þeim sem ekki hafa gert það. Kostnaðurinn við innleiðingu vottunarinnar hefur þegar hlaupið á 5-6 ma. kr. og ávinningurinn verið lítill miðað við rannsókn Hagstofunnar. Afnám jafnlaunavottunar myndi draga úr kostnaði hjá fyrirtækjum og þannig bæta starfsumhverfi þeirra.

Skilvirk starfsemi hins opinbera

#13: Afnema sérréttindi opinberra starfsmanna.

Opinberir starfsmenn njóta fjórþættra sérréttinda sem jafngilda um 19% kauphækkun. Afnám þessara sérréttinda myndi þýða hagræði uppá 32 ma. kr. árlega. Það að færa starfsumhverfi opinberra starfsmanna til samræmis við það sem gerist á einkamarkaði myndi auka skilvirkni hins opinbera.

#14: Fækkun og sameiningar stofnanna.

Fækka mætti ríkisstofnunum hér á landi úr 168 í 68 með sameiningum. Það myndi tryggja 11 ma. kr. hagræðingu árlega, minni kostnað við stoðþjónustu innan stofnanna og hagkvæmari rekstrareiningar.

15: Ríkið hætti ákveðnum verkefnum.

Hið opinbera ætti að endurskoða umfang sitt innan hagkerfisins og leggja af ákveðin verkefni. Má þar t.d. nefna breytt umfang jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, aflagningu niðurgreiðsla á rafbílum og vaxtabótakerfisins, hætta veitingu hlutdeildarlána og leggja niður styrki til stjórnmálasamtaka og einkarekinna fjölmiðla, samhliða umbótum á löggjöf á umhverfi beggja.

#16 Auka aðkomu einkaaðila að innviðauppbyggingu.

Til að flýta fyrir innviðauppbyggingu hér á landi ætti að auka aðkomu einkaaðila að henni. Þá myndu einkaaðilar taka þátt í fjármögnun og rekstri ákveðinna innviða um ákveðinn tíma. Hvalfjarðagöngin eru gott dæmi um hvers vegna slíkt fyrirkomulag getur verið ákjósanlegt.

#17: Takmarka útgjaldavöxt í almannatryggingakerfinu.

Útgjöld vegna örorku og veikinda hafa vaxið hratt undanfarin ár. Ungum öryrkjum hefur einnig farið ört fjölgandi. Stjórnvöld ættu því að innleiða virkt endurmat á starfsgetu öryrkja, sérstaklega í ljósi þess að starfsorka getur breyst og eðli vinnumarkaðarins sömuleiðis.

#18: Taka upp samræmd próf á grunnskólastigi.

Árangri nemenda á grunnskólastigi hefur hrakað hratt á undanförnum árum og er árangur kerfisins nú orðinn með því lakasta sem gerist í Evrópu. OECD hefur bent á nauðsyn þess að innleiða samræmt námsmat í grunnskólum landsins og jafnframt lagt áherslu á að lakari námsárangur geti haft verulega neikvæð efnahagsleg áhrif. Því er brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að sporna gegn þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.