Félagið H-26 ehf. var með dómi Héraðsdóms norðurlands eystra í upphafi viku sýknað af kröfu bosnísks verkamanns um vangoldin laun og skaðabætur. Samanlagt nam dómkrafa málsins, fyrir skaðabóta- og dráttarvexti, tæpum 17 milljónum króna en dómurinn taldi að röngum aðila hafi verið stefnt í málinu og því sýknað sökum aðildarskorts.
Maðurinn kom hingað til lands í febrúar 2019 til að vinna að byggingu Hafnarstrætis 26 í Innbænum á Akureyri. Samlandi hans tók á móti honum á Akureyri og var honum tjáð að kaup og kjör yrðu í samræmi við kjarasamninga, að fæði og húsnæði yrðu hluti af starfskjörunum og að vinnuveitandi myndi útvega dvalar- og atvinnuleyfi.
Eigandi lóðarinnar var fyrrnefnt H-26 ehf. Eigandi þess var skráður Kári Arnór Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, en það félag hafði gert samninga við hið serbneska Enka Kolor Grupa um að sjá um framkvæmdina. Seinna meir kom í ljós að atvinnu- og dvalarleyfi hafði ekki verið útvegað og rifti H-26 þá samningum við Enka.
Tæpum tveimur mánuðum eftir komu til landsins lendi starfsmaðurinn í slysi þegar A-trappa, sem hann stóð í, valt þegar hann var að setja upp handrið. Taldi hann að H-26 bæri ábyrgð á því þar sem aðbúnaður á vinnustað hafi ekki verið fullnægjandi. Að auki hafi laun ekki verið greidd og bæri félaginu að greiða honum það. Krafa málsins hljóðaði upp á 5,1 milljón króna vegna vangoldinna launa fyrir og eftir slys og síðan 11,5 milljónir í skaðabætur vegna slyssins.
H-26 byggði aftur á móti á því að Bosníumaðurinn hafi ekki verið starfsmaður félagsins þar sem Enka hefði séð um verkið í verktöku. Það félag hefði ráðið starfsfólk og þá hefði enginn verið á launaskrá hjá H-26. Einu skyldurnar sem félagið hefði tekið á sig væri að útvega starfsfólki fæði og húsnæði. Þá ætti það að hafa áhrif á réttarstöðu mannsins að hann hafi verið meðvitaður um að hann var hér á landi án dvalar- og atvinnuleyfis.
Var ekki í vinnu hjá íslenska félaginu
Í niðurstöðu dómsins segir að maðurinn hafi ekki skilað nauðsynlegum gögnum til vinnuveitanda síns áður en hann hóf hér störf. Enka bar að útvega honum tilskilin leyfi en því var ekki sinnt og virtist manninum kunnugt um það. Sökum þess var ábyrgð á því ekki lögð á íslenska félagið heldur Bosníumanninn sjálfan.
„Því er hafnað að [H-26] geti borið ábyrgð á launakjörum stefnanda og með öllu er ósannað að [H-26] hafi verið kunnugt um að stefnandi hafi starfað hér á landi og hvað þá að hann hefði ekki dvalar- og atvinnuleyfi hér. Hér er áréttað að samkvæmt verksamningi [H-26] og [Enka] bar [Enka] að manna verið. Þótt [H-26] hafi séð um að útvega húsnæði fyrir vinnuflokkinn og fæði þá felst ekki í því að [H-26] hafi þekkt til hvers og eins starfsmanns,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Hvað líkamstjón mannsins varðaði þá sagði dómurinn að þegar hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekki verið starfsmaður félagsins, ekki kunnugt um að hann væri að starfa þar og hefði ekki haft nokkur áhrif á starfsaðstöðuna eða hvernig verkið var unnið. Því hefði það ekki sýnt af sér saknæma háttsemi og gæti ekki borið ábyrgð á tjóninu.
Verkamaðurinn naut gjafsóknar í málinu en var engu að síður dæmdur til að greiða 500 þúsund krónur upp í málskostnað til H-26. Var við þá ákvörðun höfð hliðsjón af því að maðurinn mátti vita að hann hefði ekki dvalar- og atvinnuleyfi sem og að Enka væri vinnuveitandi hans en ekki íslenska félagið. Annar kostnaður, alls 1.300 þúsund krónur, þar með talin þóknun til lögmanns hans, greiddist úr ríkissjóði.
„Þóknunin er ákvörðuð með hliðsjón af efni og umfangi málsins. Þá telur dómurinn úr hófi að ferðakostnaður sé á tímaskýrslu talinn vera rúmar 260.000 kr. á meðan unnt er að fá fluggjald fyrir 40.000 kr.,“ segir í dóminum. Fátítt er að slíkur rökstuðningur fylgi ákvörðunum um málskostnað.