Sjóvá var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu farþega í flugi Wizz Air um viðurkenningu á bótaskyldu vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þegar eldur kviknaði um borð í vélinni. Farþeginn taldi sig hafa orðið fyrir svo miklu andlegu áfalli að hún ætti rétt á bótum úr slysatryggingu.
Atvik málsins eru frá því í september árið 2017. Þá var vél Wizz Air á leið frá Íslandi til Póllands. Yfir Mýrdalsjökli, það er skömmu eftir flugtak, varð reyks vart í handfarangursrými. Eldur hafði kviknað í hliðarvasa tösku út frá rafsígarettu. Vélinni var snúið við til Íslands eftir að áhöfn hafði slökkt eldinn og farþegum flogið út næsta dag eftir það.
Eftir atvikið dvaldist konan í Póllandi og leitaði meðal annars til geðlæknis. Þegar hún kom aftur til Íslands nokkrum mánuðum síðar leitaði hún aðstoðar geðsviðs Landspítala. Var hún metin óvinnufær vegna áfallsins í tvo mánuði í byrjun árs 2018. Í vottorði heimilislæknis var hún síðan metin óvinnufær frá dagsetningu flugsins í september 2017 og til loka mars 2018.
Í apríl sendi lögmaður konunnar bréf á Sjóvá og óskaði eftir afstöðu um það hvort atvikið teldist til slyss og hvort hún gæti fengið tjón sitt bætt úr fjölskyldutryggingu sinni. Sjóvá hafnaði bótaskyldu þar sem atvikið gæti ekki talist sem slys í skilningi vátryggingaréttarins og skilmála tryggingarinnar, það er andleg einkenni gætu ekki talist „meiðsli á líkama“. Í ljósi fyrri sögu konunnar var einnig vísað til þess að ólíklegt væri að óvinnufærni hennar mætti rekja til atviksins í fluginu.
Var viss um að hún myndi deyja
Í málsrökum konunnar fyrir dómi kom fram að hún hafi talið að eftir að eldurinn kom upp hafi hún verið handviss um að flugvélin myndi hrapa. Slíkt hefði verið líklegt til að valda henni heilsu- eða líftjóni. Orsakatengsl hafi verið milli atburðarins og einkenna hennar, það er áfallastreituröskunar og krónísks þunglyndis. Vottorð sérfræðinga staðfesti að heilsu hennar hafi hrakað mjög eftir atvikið.
Einnig var vísað til dómaþróunar í Danmörku en skaðabótarétturinn þar ytra og hér heima hvílir að ýmsu leyti á áþekkum meginreglum. Vísað var í tíu ára gamlan dóm Hæstaréttar Danmerkur þar sem kom fram að um áratugaskeið hafi slysahugtakið aðeins verið talið ná til líkamlegs tjóns. Breytt viðhorf í samfélaginu leiddu hins vegar til þess að „slysahugtakið í slysatryggingum bætti tjón vegna slyss sem ylli aðeins andlegum einkennum hjá vátryggðum, ylli atvik því að vátryggður lenti í erfiðum aðstæðum þar sem hann væri í hættu á að verða fyrir líkamstjóni eða fyrir hótunum um að verða fyrir slíku tjóni.“
Í upphafi er rétt að geta þess að til að geta krafist viðurkenningar á bótaskyldu þarf aðili að leiða nægilegar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, í hverju það felst og tengsl þess við mál. Við meðferð málsins taldi Sjóvá konuna eiga lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu í máli sínu. Með hliðsjón af því, og gögnum málsins, taldi dómari málsins ekki tilefni til að vísa því frá dómi.
Ekkert slys átti sér stað
Í niðurstöðu dómsins sagði að ekki hefði verið upplýst um önnur álagstilvik í lífi konunnar fram að flugferðinni örlagaríku. Vottorð lækna um heilsufar hennar voru ekki dregin í efa en þó talið að það drægi úr sönnunargildi þeirra að þau byggðu á einhliða frásögn konunnar.
„Atvikið átti sér því stað á gangi flugvélarinnar um sex sætaröðum fyrir aftan sæti stefnanda, sem var við glugga. Bendir ekkert til þess að stefnandi hafi sjálf séð eld, en hún hefur lýst því að hafa orðið vör við viðbrögð farþega og athafnir áhafnarinnar meðan hann var slökktur og að hafa orðið vör við vatn á gólfi á eftir. Umrædd atvik verða ekki talin hafa beinst að stefnanda eða hafa ógnað henni sérstaklega,“ segir í dóminum.
Þar sem koman kom hvergi nærri eldinum, stóð ekki sérstök ógn af honum og varð ekki fyrir líkamstjóni var talið að tilvikið félli ekki undir slyshugtakið eins og það var skilgreint í vátryggingarskilmálum. Réttarþróun hér á landi og erlendis gæti ekki breytt því. Þar sem ekkert bótaskylt slys hafði átt sér stað var Sjóvá sýknað.
Líkt og oft vill verða þegar stefndi er vátryggingafélag var málskostnaður milli aðila felldur niður. Gjafsóknarkostnaður konunnar, 800 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði.