Fyrrverandi eigandi köfunarfyrirtækisins Dive.is, sem sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru, var meðal tekjuhæstu Íslendinganna árið 2024. Tobias Klose, sem seldi 49% hlut í fyrirtækinu í fyrra, var með 423 milljónir króna í fjármagnstekjur.

Greint var frá því í apríl 2024 að Kynnisferðir hefðu eignast Dive.is, eða Sportköfunarskóla Íslands ehf., að fullu en samkvæmt ársreikningi Kynnisferða greiddi fyrirtækið 417 milljónir fyrir eignarhlutinn. Var virði fyrirtækisins því metið á hátt í 900 milljónir króna í viðskiptunum.

Sportköfunarskóli Íslands ehf. hagnaðist um 97 milljónir króna í fyrra og námu tekjur 658 milljónum. Bókfærðar eignir námu 296 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé nam 203 milljónum.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.