Fjár­festingafélagið Viska Digi­tal Assets hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú Viska sjóðir. Sam­hliða nafna­breytingunni hefur félagið kynnt nýjan sjóð, Viska macro, sem að sögn félagsins byggir á heildarsýn þess á þróun alþjóð­legs efna­hags­um­hverfis og áhrifum gervi­greindar á hag­kerfi heimsins.

Í til­kynningu félagsins kemur fram að Viska macro muni leggja áherslu á fjár­festingar í tækni og hörðum eignum, þar sem sér­stak­lega sé horft til þeirrar fjár­festingarþar­far sem fylgi ört vaxandi notkun gervi­greindar.

Sjóðurinn verður ein­göngu markaðs­settur gagn­vart fag­fjár­festum og mun að megin­stefnu til fjár­festa í hluta­bréfum.

„Frá stofnun Visku höfum við lagt áherslu á að greina og skilja þær um­breytingar sem eiga sér stað í heims­hag­kerfinu. Raf­myntir og bálka­keðju­tækni voru fyrsti fókusinn en við höfum jafn­framt bent á að ákveðnir eigna­flokkar munu einnig njóta góðs af þessum breytingum. Þar má nefna eignir eins og gull og ákveðnar hrávörur auk annarra eigna sem við munum leggja áherslu á í nýjum sjóði,“ segir Daði Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri Visku sjóða.

„Gervi­greindin er stærsta tækni­bylting okkar tíma og mun að okkar mati hafa víðtækari áhrif en til­koma Inter­netsins. Til þess þarf gríðar­lega fjár­festingu í inn­viðum, orku og hrávörum sem mun að okkar mati skapa mikil tækifæri á næstu árum sem Viska macro ætlar sér að nýta,“ segir Guðlaugur Gísla­son, fjár­festinga­stjóri Visku sjóða.