Heildarvelta á aðalmarkaði Kauphallarinnar var í dag 3,7 milljarðar króna, og hækkaði úrvalsvísitalan um 0,5%. Tólf af tuttugu félögum aðalmarkaðarins voru græn í viðskiptum dagsins og fimm voru rauð.
VÍS hækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar í dag en gengi tryggingafélagsins hækkaði um 4,9% og var veltan 360 milljónir. Næst mesta hækkunin var hjá Sjóvá í 389 milljón króna viðskiptum. Bæði félögin njóta góðs af hlutafjárútboði Ölgerðarinnar sem lauk fyrir helgi, Sjóvá átti 5,1% og VÍS 2,5% í félaginu fyrir útboðið.
Mesta lækkun dagsins var hjá Iceland Seafood og nam dagsbreytingin 1,6% í tveggja milljón króna viðskiptum, gengi bréfa félagsins hafa lækkað um 36,5% á árinu.
Mesta veltan var með hlutabréf Marel eða um 600 milljónir en gengi félagsins lækkaði um 1% í dag og stendur nú í 604 krónum á hlut.