Alls voru dómssektir að fjárhæð 1.341 milljón króna afskrifaðar á árunum 2014-2021, að því er kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar. Embættið beinir sjónum sínum einnig að lágu innheimtuhlutfalli dómssekta og furðar sig á aðgerðarleysi dómsmálaráðuneytisins.
Samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar og Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar orsakast fyrningar sekta af samspili margra þátta á borð við skamma og órjúfanlega fyrningarfrest, skorti á innheimtuúrræðum, efnaleysi sektarþola og því þegar ekki næst í þá, t.d. vegna andláts, flutnings af landi brott eða þegar þeir eru óstaðsettir í hús.
Auk þess valdi skortur á fangelsisrýmum því að forgangsraða þarf í afplánun fangelsa og eru ofbeldis- og kynferðisbrot þar í forgangi. Ríkisendurskoðun segir að þetta hafi í för með sér að sæki dómþoli sem afplána þarf vararefsingu ekki um afplánun með ólaunaðri samfélagsþjónustu þá séu yfirgnæfandi líkur á því að dómur yfir viðkomandi fyrnist án fullnustu hans.
Í skýrslunni segir að af þeim 177 fangelsisrýmum sem Fangelsismálastofnun hafði yfir að ráða árið 2021 gat stofnunin einungis starfrækt 135 vegna fjárskorts. „Að mati Ríkisendurskoðunar er það verulegt áhyggjuefni að Fangelsismálastofnun nái ekki að uppfylla lagalegt hlutverk sitt sem skyldi í þessu tilliti."
Aðeins 2,2% sekta verið greiddar
Álagðar dómsektir sem námu 10 milljónum króna eða meira á tímabilinu 2014-18 voru að heildarfjárhæð 5.699 milljónir. Af þeim höfðu í árslok 2021 einungis 2,2% verið greiddar.

Í 41% tilvika voru dómar fullnustaðir með beitingu vararefsingar, þar af í 38,7% tilvika með ólaunaðri samfélagsþjónustu og í 2,3% tilvika með fangelsisvist. Ríkisendurskoðun tekur þó fram að 49,2% sekta fyrir sama tímabil séu enn í virkri innheimtu en afskriftarhlutfall við árslok 2021 var 1,2%.
Lýsir furðu yfir aðgerðarleysi ráðuneytisins
Í skýrslunni segir að innheimtuhlutfall dómsekta hafi verið mun lægra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum um árabil. Úttektin hafi leitt í ljós að lítil sem engin breyting hafi orðið á árangri innheimtu frá því embættið skoðaði sama málaflokk árið 2009.
Ríkisendurskoðun segist hafa ítrekað sett fram ábendingar frá árinu 2009 sem miða að hækkun innheimtuhlutfalls. Embættið minnist á að við meðferð Alþingis á frumvarpi um ný fullnustulög nr. 15/2016 var tekið undir niðurstöðu og sjónarmið Ríkisendurskoðunar og árangur innheimtu sekta- og sakarkostnaðar metinn afleitur.
„Ekki reyndist þó vilji til að innleiða í lög aðgerð eins og launaafdrátt vegna sektargreiðslna eða breyta fyrirkomulagi ólaunaðrar samfélagsþjónustu sem hefur verið algengasta fullnustuúrræði vararefsinga.“
Ráðherraskipaður starfshópur skilaði í lok árs 2018 tillögum sem miða áttu að bættu innheimtuhlutfalli. Samhliða skilaði hópurinn fullmótuðu frumvarpi til breytinga á lögum um fullnustu refsinga, lögum um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum.
„Dómsmálaráðuneyti hefur ekki brugðist við tillögum starfshópsins með formlegum hætti og hvorki unnið með né tekið markvissa afstöðu til skýrslu hans. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra hefur í tvígang, árið 2020 og 2022, skorað á dómsmálaráðherra að kynna sér efni skýrslunnar.
Ríkisendurskoðun lýsir furðu yfir aðgerðaleysi ráðuneytisins og minnir á að skipan og hlutverk starfshópsins var fest í lög nr. 15/2016, í sérstöku bráðabirgðaákvæði. Beinir Ríkisendurskoðun því til ráðuneytisins að taka efnislega afstöðu til skýrslu starfshópsins enda eru tillögur hennar að mati Ríkisendurskoðunar til þess fallnar að bæta innheimtuhlutfall.“
Afskriftir dómsekta 2014-2021
Afskriftir (m.kr.) |
256,5 |
171,8 |
138,6 |
34,6 |
124,6 |
135,5 |
59,1 |
420,4 |
1341,1 |