Heimar hf. skilaði 1,1 milljarðs króna hagnaði á fyrri árs­helmingi 2025 og hækkaði af­komu­spá sína í kjölfar tveggja stórra fast­eigna­kaupa.

Félagið áætlar nú bæði hærri leigu­tekjur og rekstrar­hagnað en áður, þar sem nýjar eignir munu auka tekju­streymi á komandi árum.

Sam­kvæmt upp­gjöri félagsins námu rekstrar­tekjur 7,6 milljörðum króna á fyrri árs­helmingi, þar af voru leigu­tekjur 7,2 milljarðar, sem er 4,9% aukning frá sama tíma­bili í fyrra. EBITDA nam 5,1 milljarði og hækkaði um 4,5%, en hagnaður félagsins dróst saman og nam 1,1 milljarði saman­borið við 4,3 milljarða í fyrra.

Kaupin á Grósku og Exeter-hótelinu á öðrum árs­fjórðungi hafa hins vegar veru­leg áhrif á framtíðar­af­komu.

Félagið áætlar nú að leigu­tekjur 2025 verði 15,2–15,5 milljarðar og EBITDA 10,8–11,1 milljarðar, sem er hækkun frá fyrri spám.

Auk þess er gert ráð fyrir að tekjur núverandi eigna­safns fyrir næstu tólf mánuði muni nema 16,4–16,7 milljörðum króna.

„Rekstur gengur vel og í kjölfar tveggja stórra við­skipta á fyrri hluta árs hefur af­komu­spá félagsins verið upp­færð. Leigu­tekjur eru nú áætlaðar 15.200-15.500 m.kr. og EBITDA 10.800-11.100 m.kr. á árinu 2025.

Við finnum fyrir sterkri eftir­spurn eftir at­vinnu­húsnæði. Tekju­vöxtur leigu­tekna er 4,9% miðað við sama tíma­bil í fyrra. Breyting á eigna­safni hefur jákvæð áhrif á tekju­vöxt milli ára, en raun­vöxtur á sam­bæri­legu eigna­safni milli ára er 0,3%,“ segir Halldór Benja­mín Þor­bergs­son, for­stjóri Heima.

Virði fjár­festingar­eigna félagsins að frá­dregnum leigu­eignum er metið á 212.955 m.kr. Safnið saman­stendur nú af 97 fast­eignum sem alls eru um 389 þúsund fer­metrar.

Hand­bært fé frá rekstri var 2,3 milljarðar króna og nam hand­bært fé félagsins alls 3,4 milljörðum í lok júní. Vaxta­berandi skuldir stóðu í 131,2 milljörðum króna, eigin­fjár­hlut­fall var 32,2% og skulda­hlut­fall 61,6%.

Fjár­hags­staða félagsins er sterk og fjár­hags­leg skil­yrði innan marka lána­skilmála, eigin­fjár­hlut­fall 32,2% (skil­yrði 25%).

Í lok tíma­bilsins var hand­bært fé 3.395 m.kr. og auk þess hafði félagið að­gang að ónýttum lána­línum að fjár­hæð 2.700 m.kr. í lok tíma­bilsins.

Bankalán sem voru á gjald­daga 2026 hafa verið endur­fjár­mögnuð og færist loka­gjald­dagi þeirra til ársins 2031.

Út­leigu­hlut­fall félagsins var 97% í lok annars árs­fjórðungs. Alls voru gerðir 36 nýir leigu­samningar fyrir um 17.290 fer­metra, þar á meðal við Öldung, Sam­herja, Eflu og Arcti­ca Finance.

Öll rými í nýrri mat­höll í Smára­lind hafa verið út­leigð og opnun hennar er fyrir­huguð á næstu mánuðum. Þá opnaði Star­bucks nýtt kaffi­hús á Hafnar­torgi, það stærsta á Ís­landi til þessa.