Alls voru tólf forstjórar með yfir tíu milljónir króna í mánaðarlaun miðað við greitt útsvar í fyrra. Líkt og greint var frá fyrr í vikunni var Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar með 40,1 milljón.

Í öðru sæti listans er Davíð Helgason, stofnandi Unity, en hann var með ríflega 33 milljónir króna á mánuði en hann var með sömu tekjur árið 2023. Hann var þá þriðji launahæsti Íslendingurinn í fyrra.

Lengra er á milli næstu sæta en í þriðja sæti er Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marel, með 16,7 milljónir á mánuði. Haraldur Líndal Pétursson, forstjóri Fagkaupa, var síðan með 14,7 milljónir á mánuði. Kári Stefánsson, sem lét af störfum hjá Íslenskri erfðagreiningu fyrr í ár, var í fimmta sæti með 13,5 milljónir á mánuði.

Fyrir utan Árna var Orri Hauksson, sem lét af störfum sem forstjóri Símans í lok síðasta sumars, efstur forstjóra í Kauphöllinni en hann var með 12,6 milljónir á mánuði. Næsti kauphallarforstjórinn var Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, með 11,4 milljónir á mánuði.

Aðeins ein kona er á lista yfir 10 launahæstu forstjórana en það er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, sem var með 11,1 milljón á mánuði. Sé horft til 20 launahæstu forstjórana bætist Hrund Rudólfsdóttir, fyrrverandi forstjóri Veritas Capital við en hún var með tæplega 10,6 milljónir á mánuði.

Aðrir forstjórar sem voru með meira en tíu milljónir á mánuði voru Grímur Karl Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, með 11,8 milljónir, Hjörtur Valdemar Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, með 11 milljónir, og Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, með 11 milljónir.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni námu meðal mánaðarlaun 200 forstjóra í einkageiranum tæplega 5,1 milljón króna á síðasta ári. Hvað 50 efstu forstjórana varðar námu mánaðarlaunin að jafnaði tæplega níu milljónum króna.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.