Ragnar Jónasson rithöfundur var tekjuhæsti rithöfundur landsins á síðasta ári. Tekjur hans námu tæpum 2 milljónum króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Árið 2023 námu tekjur hans um 1,7 milljón.

Jón Kalmann Stefánsson var með tæplega 1,4 milljón á mánuði í fyrra, sem eru sömu laun og árið á undan. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur var með ríflega 1,2 milljónir samanborið við 1,3 árið 2023. Guðmundur Andri sat á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2017 til 2021.

Arnaldur Indriðason var með 950 þúsund í tekjur á síðasta ári miðað við greitt útsvar. Árið 2023 námu tekjurnar 850 þúsund krónum.

Fjórir rithöfundur voru með um 800 þúsund krónur í tekjur á mánuði í fyrra en það eru Guðmundur Magnússon, Gunnar Helgason, Gyrðir Elíasson og Yrsa Sigurðardóttir.

Þónokkrir rithöfundar voru með tekjur, sem eru um að undir atvinnuleysisbótum í landinu. Andri Snær Magnason var með 370 þúsund í tekjur á mánuði miðað við greitt útsvar. Pétur Gunnarsson var með 360 þúsund og Ólafur Haukur Símonarson með 345 þúsund.

Jónína Leósdóttir var með 299 þúsund í mánaðartekjur á síðasta ári miðað við greitt útsvar og Halldór Armand Ásgeirsson var með 294 þúsund. Loks var Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, með 183 þúsund í tekjur á mánuði í fyrra.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.