Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði á dögunum eftir því að aðalhagfræðingur fjárfestingabankans Goldman Sachs yrði látinn fara vegna ábendinga hans um skaðleg áhrif tollastefnu stjórnvalda í Washington á bandarískan almenning. Þetta varð til þess að fréttastofa Ríkisútvarpsins vísaði í skrif danska hagfræðingsins Lars Christensen á samfélagsmiðlum.
Þar rifjaði Lars upp hvernig hann og samstarfsmenn hans urðu fyrir þrýstingi og hótunum frá stjórnmálamönnum, þar á meðal íslenskum, fyrir að gerast boðberar válegra tíðinda um stöðu markaða í aðdraganda fjármálakreppunnar. Hrafnarnir sakna þess þó að fréttastofan hafi ekki leitað að áþreifanlegri dæmum.
Þannig hefði mátt rifja upp þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá starfandi forsætisráðherra, hjólaði í Richard Thomas, greinanda hjá Merrill Lynch, sem réttilega benti á viðkvæma stöðu íslensku bankanna árið 2008. Þorgerður gerði greinandanum upp annarlegar hvatir og sagði hann þurfa á endurmenntun að halda. Sjálf átti hún mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta í Kaupþingi þegar þessi orð féllu, en síðar bað hún Thomas afsökunar á ummælum sínum.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 20. ágúst 2025.