Veruleg aukning hefur orðið á því að opinberir aðilar og stofnanafjárfestar hafi sett sér eigandastefnur, ýmist almennar eða vegna tiltekinna eignarhluta. Stefnurnar eru jafn mismunandi og þær eru margar og ekki nema von að stjórnarmenn hafi spurt sig hvaða gildi eigandastefnur hafa og hvort/eða hvaða áhrif þær eiga að hafa á störf stjórna. Hver er munurinn á ákvæðum laga, samþykkta félaga og eigandastefna – og skiptir sá munur einhverju máli fyrir stjórnarmenn?

Einfalda svarið fyrir stjórnarmenn er að eigandastefnur hafa ekki þá lagalegu stöðu sem þarf til að afmarka hlutverk, umboð eða ábyrgð stjórna. Eigandastefna ríkisins nýtur þar reyndar sérstöðu vegna 44. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál, ásamt einstökum eigandastefnum sem settar hafa verið á grunni hennar. Umfjöllun þessarar greinar á engu að síður við um eigandastefnur ríkisins að öðru leyti.

Lög og samþykktir

Um skipan, hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnarmanna er fjallað í þeim lögum er gilda um rekstrarform viðkomandi félags, s.s. lögum nr. 2/2005 um hlutafélög. Hlutafélagalög skilgreina því þann ramma sem gildir um störf stjórna. Í samþykktum útfæra eigendur rammann nánar og heimfæra upp á rekstur viðkomandi félags og skilgreina nánar ákvæði um tilgang félags og stjórn þess, þ.e. hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnar. Til að tryggja réttaröryggi og gegnsæi kveða hlutafélagalög síðan ítarlega á um hvernig birtingu og breytingu samþykkta skal háttað.

Samþykktir félaga eru því helsta réttarheimildin um stjórnarhætti félagsins, að lögum slepptum.

„Engagement Policy“

Eigandastefnur eru annars eðlis. Þær hafa ekki lagalega stöðu og engin ákvæði gilda um tilurð þeirra, breytingu eða birtingu. Eigandastefnur fjalla um stefnu eiganda, gjarnan opinbers aðila eða stofnanafjárfestis, s.s. lífeyrissjóðs, tryggingafélags, verðbréfasjóðs eða annars aðila sem fer fyrir fjármunum almennings. Eigandastefnur fjalla um hvernig eigandi hyggst beita sér sem eigandi og teljast til góðra stjórnarhátta, vegna aukinnar kröfu um gegnsæi í meðferð fjármuna almennings og réttinda þeim tengdum, sem og þeirrar kröfu að stofnanafjárfestar beiti sér með samfélagslega ábyrgum og gegnsæjum hætti sem eigendur. Enska nafnið „engagement policy“ endurspeglar hugtakið vel og er „þátttökustefna eiganda“ því kannski betur lýsandi en eigandastefna eða hluthafastefna.

Eigandastefnur innihalda ákvæði um stefnu eigandans vegna eignarhaldsins, s.s.

- Markmið með eignarhaldi

- Innri stjórnarhætti eigandans vegna eignarhlutar, þ.e. hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnar og einstakra eigandans

- Á hvaða sviðum eigandi hyggst beita sér sem eigandi, s.s. vegna góðra stjórnarhátta, stefnu um fjármagnsskipan, arðgreiðslustefnu og starfskjarastefnu

- Hvernig eigandi hyggst beita sér sem eigandi, s.s. með upplýsingagjöf og samskiptum við stjórn og virkri þátttöku á hluthafafundum

- Hvernig eigandi birtir upplýsingar um framkvæmd eigandastefnunnar og þátttöku sína sem eiganda Framangreindar upplýsingar eru mikilvægar fyrir hagaðila eigandans annars vegar, s.s. almenning eða sjóðfélaga, og hagaðila viðkomandi félaga sem hann fjárfestir í hins vegar. Og ekki má gleyma að formlegar og gegnsæjar reglur um fyrirkomulag samskipta fjárfesta við stjórn stuðla að sjálfstæði stjórnarmanna og tryggja trúnaðarskyldu þeirra gagnvart félaginu.

Takmarkanir eigandastefna

Ætli eigandi hins vegar að gefa fyrirmæli um hlutverk, umboð eða ábyrgð stjórna, þá er eigandastefna ekki rétti vettvangurinn. - Fyrirmæli eiganda um tilgang eða starfsemi félags eiga heima í samþykktum - Fyrirmæli eiganda um hlutverk, verkefni eða aðrar skyldur stjórnar eiga heima í samþykktum - Fyrirmæli eiganda um tiltekna stefnumótun félags á heima á vettvangi hluthafafunda - Fyrirmæli eiganda um tiltekna starfshætti eða upplýsingagjöf stjórnar eiga heima á vettvangi hluthafafunda og eftir atvikum í samþykktum.

Ástæðan er einkum hinar formlegu og ströngu reglur sem gilda um hluthafafundi og samþykktir. Ferli vegna tillagna eiganda sem áhrif eiga að hafa á hlutverk, umboð eða ábyrgð stjórna þarf að vera formlegt og gegnsætt. Slíkt ferli gefur jafnframt öllum hagaðilum, s.s. stjórn og öðrum hluthöfum, færi á að rýna skoðanir viðkomandi eiganda, taka þátt í umræðum um þær og greiða að lokum atkvæði um hvort þær eigi að hafa áhrif á störf stjórnar eða ekki.

Eigendastefnur um tiltekna stefnu og starfshætti stjórna Eigendur geta því ekki stytt sér leið í gegnum eigandastefnur með því að gefa í einum vettvangi fyrirmæli til stjórna um að þær skuli inna störf sín af hendi með tilteknum hætti. Eigendur geta vissulega beint einstökum sjónarmiðum sínum til stjórna með upplýsingagjöf og samskiptum við þær í takt við eigandastefnu og starfsreglur stjórnar.

Taki stjórn hins vegar ekki skilyrðislaust undir lík sjónarmið hluthafa, þarf eigandinn að láta reyna á samþykkta breytingu eða tillögu varðandi álitaefnið á hluthafafundi þannig að það hljóti gildi gagnvart viðkomandi stjórn. Stjórn getur þannig óhikað fylgt sannfæringu sinni og trúnaði þar til hluthafafundur ákveður annað. Það er vissulega fagnaðarefni að ákvarðanataka og áhrif opinberra aðila og stofnanafjárfesta sem eigenda séu dregin upp á yfirborðið. Um leið er það athyglisvert að meginefni einstaka eigandastefna, einkum stefnur opinberra aðila, fjalla að miklu leyti um stjórn, skipulag, stjórnarhætti, stefnumörkun og framtíðarsýn, rekstur, starfshætti og vinnulag og upplýsingagjöf stjórna viðkomandi félaga sem undir stefnurnar falla en ekki eigandans.

Raunverulegt gegnsæi er hins vegar á huldu um: - hvernig eigandinn hyggst beita sér - innra skipulag hans vegna samskipta hans við stjórn og - form og skipulag á eftirliti hans með stjórnarháttum Eigandastefna er það sem hún er. Stefna eiganda um hvernig hann hyggst beita sér sem eigandi og hún veitir gegnsæi í störfum aðila sem sýsla með fé almennings. Fyrirmæli og ályktanir umfram ákvæði laga og samþykkta varðandi tilgang og starfsemi félags eða hlutverk, umboð, ábyrgð og stefnu í störfum stjórna frá einum tíma til annars, eiga ekki heima í eigandastefnum, heldur fyrir opnum tjöldum á hluthafafundum viðkomandi félaga og í takt við þær reglur sem löggjafinn hefur mótað.

Þá er ástæðulaust og varhugavert að gefa afslátt í einstökum eigandastefnum um útfærslu á því hvernig stjórnarháttum eigandans vegna eignarhlutarins er fyrir komið, ef eigandi á annað borð gefur það út að hann hyggist fylgja góðum stjórnarháttum með útgáfu eigandastefnu.