Sumri hallar og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er farin að funda reglulega á ný og undirbúningur fyrir þingveturinn er kominn á fullt skrið.
Af þessu tilefni ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við Kristrúnu forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag í síðustu viku. Þar sagðist hún vona eftir „góðu samtali“ við stjórnarandstöðuna um þingstörfin á komandi vetri.
Týr veltir fyrir sér hvort holur hljómur sé í orðum forsætisráðherrans og hvort stjórnar-
meirihlutinn muni leggja alla áherslu á að keyra illa reifuð og vanhugsuð mál í gegnum þingið.
Að minnsta kosti tala sumir stjórnarliðar og pólitískir fylgihnettir þeirra á þann veg. Á síðustu dögum þingsins lýsti Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, því yfir að það kæmi vel til greina að beita 71. grein þingskapa og stöðva umræður á Alþingi um umdeild mál.
„Ég held að þá sé eðlilegt að spyrja sig: Er þá ekki rétt að íhuga að beita umræddri grein á ný með svo ágætum árangri eins og gerðist hér í gær?“ sagði Sigurjón á Alþingi í sumar. Þetta var á sama tíma og menntamálaráðherra sakaði þingmenn stjórnarandstöðunnar um valdarán og landráð.
Jón Þórisson, útgefandi DV, skrifar um komandi þingvetur í síðustu viku. Hann segir: „Ef til vill verður ekki jafn fátítt að 71. grein þingskapalaga sé beitt hér eftir og verið hefur fram til þessa. Það hefur þá hinn háværi en fámenni minnihluti þingsins kallað fram.“
Hér dylst engum hverju er verið að hóta: Haltu þér á mottunni, annars hefur þú verra af!
Það er áhyggjuefni að það sé viðtekin skoðun meðal stjórnarliða að meirihlutinn eigi hreinlega að valta yfir þingræðið þegar það hentar og að þær leikreglur sem gilda um samstarf stjórnar og andstöðu skipti engu máli nú þegar völdin eru í þeirra höndum. Um margt minnir þetta á þróunina í Bandaríkjunum undanfarna áratugi, þar sem forsetar hafa aukið völd sín á kostnað þingsins með því að stjórna með tilskipunum. Varla er þetta braut sem þorri Íslendinga vill feta.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistil birist fyrst í blaðinu sem kom út 20. ágúst 2025.