Týr tók eftir því að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra virðast loksins hafa uppgötvað að viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs og skuldasöfnun festir verðbólguna í sessi. Það er nokkuð merkilegt í ljósi menntunar beggja ráðherra.
Ráðherrunum var greinilega brugðið þegar Seðlabankinn ákvað að breyta ekki stýrivöxtum og þegar peningastefnunefndarmenn létu í veðri vaka að frekari vaxtalækkanir væru ekki í kortunum, að öllu öðru óbreyttu.
Daði Már sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hann væri hissa á því að nýsamþykkt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hefði ekki slegið á þrálátar verðbólguvæntingar. Það kemur Tý á óvart. Fjármálaáætlun sem kastar fyrra markmiði um hallalaus fjárlög árið 2027 fyrir róða og felur í sér útgjaldaaukningu upp á tugi milljarða er vart til þess fallin að draga úr verðbólguvæntingum.
Bæði Daði og Kristrún sögðu í fjölmiðlum að ákvörðun Seðlabankans um að halda stýri-vöxtum óbreyttum, sem og sú framsýna leiðsögn sem peningastefnunefndin gaf um hvað þyrfti að gerast til þess að vextir lækkuðu, myndi setja mark sitt á gerð fjárlaga.
En er það líklegt?
Gerð fjárlaga er komin langt á veg enda kemur þing saman eftir hálfan mánuð. Týr efast um að skilaboð um aðhald og ráðdeild hafi borist á golfvelli landsins eða til Tenerife síðsumars. Þau hafa a.m.k. ekki borist til Loga Einarssonar, menningarráðherra, sem lofaði nýrri viðbyggingu við Þjóðleikhúsið fyrir milljarða síðastliðna helgi. Hvað með loforðin um félagsheimilin á landsbyggðinni, eða hvað sem þau innviðarverkefni heita sem átti að fjármagna með hækkun veiðigjalda? Og ætlaði þessi ríkisstjórn nokkuð að láta dag líða í stjórnartíð sinni án þess að einhvers staðar væri verið að bora jarðgöng?
Týr á ekki von á því að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar muni gera nokkuð til að slá á verðbólguvæntingar. Þingmálaskráin, sem lögð verður fram eftir nokkrar vikur, mun ekki heldur gera það. Þar verður að finna frumvörp um vísitölutengingu bótagreiðslna, sem er atlaga að sjálfbærni ríkisfjármála, og frumvarp um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna, sem mun fela í sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. ágúst 2025.