Það voru framsýnir jarðfræðingar sem þróuðu tækni til að minnka útblástur Hellisheiðarvirkjunar með því að binda koltvísýring í berg. Þar var verið að nota útblástur, sem var við hlið virkjunar, til að dæla ofaní borholur sem þegar voru til staðar.

Carbfix er fyrirtæki sem byggir á því að setja koltvísýring á sérútbúin skip, sem eru ólíuknúin, og þurfa að sigla mörg þúsund kílómetra til Íslands.  Fyrir þau skip þarf að byggja sérstaka höfn, bora sérstakar holur til niðurdælingar og eyða mikilli orku og fjármunum til þess.  Það sér hver einstaklingur að fyrri hugmyndin var góð en sú seinni ekki jafn góð.

Fjárfestar segja nei

Fjárfestar hafa ítrekað hafnað verkefninu.  Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, sem á Carbfix, var sagt í árslok 2022 að það yrði gríðarleg eftirspurn fjárfesta eftir verkefninu og fjárfestingabankinn Morgan Stanley var ráðinn til að selja hlutabréf í fyrirtækinu í ársbyrjun 2023.  Í stuttu máli sagt seldust engin hlutabréf og áhuginn var enginn, nema ef til kæmi bakábyrgð frá Orkuveitunni.  Meira að segja ég myndi kaupa hlutabréf í Carbfix ef ég fengi bakábyrgðir frá Orkuveitunni, þrátt fyrir að trú mín á verkefninu sé engin.

Síðasta haust var aftur sagt við stjórn Orkuveitunnar að þau ættu að samþykkja lánalínu, til að halda starfsemi Carbfix gangandi, því von væri á fjárfestum í verkefnið.  Það bólar ekkert á þeim aðilum og ég tel engar líkur á að þeir komi.  Í árslok 2024 samþykkti stjórn Orkuveitunnar að stækka lánalínu sína til Carbfix í 12 milljarða króna þrátt fyrir að það hefði legið skýrt fyrir allt frá 2022 þegar stofnað var til verkefnisins að það væri alltof mikil hætta fyrir borgarsjóð og borgarbúa að taka þátt í svona verkefni.  Til þess þyrfti alþjóðlega áhættufjárfesta.

Blindaðir af loftlagstrúarbrögðum

Fyrir nokkrum dögum komu fréttir um að stærsti aðili Evrópu í því að að fanga koltvísýring, Orsted hafi dregið sig út af markaðnum. Í desember 2023 undirritaði fyrirtækið samninga um að fanga útblástur tveggja orkuvera í Danmörku sem brenna við.  Þar var uppsprettan og framkvæmdin hlið við hlið, einsog hlýtur að teljast skynsamlegt.  Eftir það var ákveðið að skoða önnur verkefni, en í ljósi þess að orkumarkaðurinn hefur breyst svo mjög þá hefur fyrirtækið sagst ætla að einbeita sér að orkuframleiðslu. Orsted hét áður Dong (danskt olíu og gas) og sá um olíu- og gaslindir Danmerkur í Norðursjó frá 1972.  Síðar hefur fyrirtækið verið leiðandi í framleiðslu vindorku.  En með því að gleyma sér í loftslags trúnni, fremur en að einbeita sér að framleiðslu á hagkvæmri orku, fór fyrirtækið illilega útaf sporinu.  Svo mjög að nú er framundan stærsta hlutafjárútboð Danmerkur til að forða fyrirtækinu frá greiðslufalli.

Ég skrifaði grein fyrir rúmu ári síðan, „Mengum meira”, þar sem segir: 

Orkuveita Reykjavíkur hefur svikið viðskiptavini sína.  Í stað þess að tryggja þeim húshitun og rafmagn á hagstæðu verði hefur fyrirtækið farið í pólitísk gæluverkefni.  Á meðan hefur nauðsynleg orkuöflun ekki átt sér stað, viðhald setið á hakanum með tilheyrandi sprungnum hitavatnsleiðslum, og gríðarlegum fjármunum verið sólundað.  Það er ljóst að aukin framleiðsla grænnar orku eru hagsmunir Íslands og hagsmunir heimsins.  Hver ákvað að betri leið væri að auka ekki græna orkuframleiðslu hér heldur reyna, með tilheyrandi orkusóun, að reyna að grænka mengandi evrópska orkuframleiðslu með því að flytja mengunina hingað?  Hver setti stefnuna "mengum meira"?

Þar spurði ég hver bæri á endanum ábyrgð á þessu verkefni þegar ljóst væri að fjármunum hefði verið sólundað.  Fjármunum borgarbúa sem hefði átt að nýta til að efla orkuöryggi Reykvíkinga, sem er lögboðin skylda sveitarfélagsins.  Ég vil ítreka þá spurningu en samkvæmt hlutafélagalögum er það stjórn bæði Orkuveitunnar og Carbfix.  En þá má líka spyrja um ábyrgð borgarstjóra og borgarstjórna sem létu þessa vitleysu viðgangast.

Höfundur er fjárfestir.