Stórtíðindi bárust af leikmannamarkaðnum þegar tilkynnt var að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefði ráðið Ágúst Ólaf Ágústsson, fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar og stjórnarmann í Evrópuhreyfingunni.

Fáheyrt er að ráðherra sæki sér aðstoðarmenn úr röðum annarra stjórnmálaflokka og margir velta fyrir sér hvort Ágúst sé í raun yfirfrakki Samfylkingarinnar á herðum Guðmundar Inga. Staksteinahöfundur Morgunblaðsins líkir þessu við að Svandísi Svavarsdóttur hefði hugkvæmst að gera Björn Val Gíslason að aðstoðarmanni Jóns Gunnarssonar – og er sú líking réttmæt, svo furðuleg er ráðningin.

Screenshot 2025-08-26 at 18.37.22
Screenshot 2025-08-26 at 18.37.22

Hrafnarnir höfðu gaman af því að lesa fréttina um þetta á vef ráðuneytisins. Þar segir: „Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðmunds Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra.“ Starfsmenn ráðuneytisins kunna ekki einu sinni að fallbeygja nafn ráðherrans, því þessu hafði ekki verið breytt þegar Viðskiptablaðið fór í prentun á þriðjudagskvöld. Verður að teljast rannsóknarefni að enginn starfsmaður ráðuneytisins hafi komið auga á þetta.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.