Þegar daginn tekur að stytta og lægðirnar berast að landi spyrja hrafnarnir sig stundum hvað felist í því að vera manneskja?
Þeir þurfa ekki að gera það framar, því Logi Einarsson, menningarmálaráðherra, hefur loksins komið með endanlegt svar við spurningunni um hvað felist í mennskunni: Það að vera manneskja er að byggja viðbyggingu við Þjóðleikhúsið. Hrafnarnir heyrðu viðtal við Loga í Morgunútvarpi RÚV í vikunni þar sem hann var spurður út í gagnrýni á áform hans um að stækka Þjóðleikhúsið á sama tíma og verðbólga er þrálát og verðbólguvæntingar háar, meðal annars vegna hallareksturs ríkissjóðs. Við þessu átti ráðherrann snjallt svar: „Við þurfum að halda áfram að lifa. Við þurfum að halda áfram að vera manneskjur.“
Vafalaust mun þetta svar heyrast frá fleiri ráðherrum þegar kemur að því að réttlæta útgjöld til gæluverkefna á næstunni nú þegar Kristrún Frostadóttir forsætisherra hefur boðað að "verðmætasköpunarhaust" sé runnið upp.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.