Samkeppniseftirlitið hefur sektað Landsvirkjun um 1,4 milljarða króna. Eftirlitið telur að Hörður Arnarson og hans fólk hjá Landsvirkjun hafi svínað á Orku náttúrunnar og N1 Rafmagni með því að selja þeim orku samkvæmt verðskrá en undirboðið þau þegar kom að viðskiptum Landsnets.
Með þessu hafi Landsvirkjun notað yfirburðastöðu sína til að tryggja sér yfirráð í útboðum og hindrað að samkeppni myndaðist. Þar með var komið í veg fyrir að sú samkeppni skilaði fyrirtækjum og heimilum hagstæðara raforkuverði til lengri tíma.
Hrafnarnir undra sig á hversu lítil viðbrögð þessi ákvörðun hefur vakið, ólíkt því sem tíðkast hefur þegar önnur víðtæk samkeppnisbrot hafa komið upp.
Þeir telja þó ekki þurfa að bíða lengi eftir því að vopnabræðurnir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og Breki Karlsson hjá Neytendasamtökunum stígi fram og fordæmi framferði Landsvirkjunar. Þá muni þeir láta reikna út samfélagslegan kostnað samkeppnisbrotanna líkt og gert var þegar SKE sektaði Samskip. Ragnar Þór Ingólfsson, þáverandi formaður VR, var með í þeirri vegferð — og vafalaust slæst núverandi formaður, Halla Gunnarsdóttir, í hópinn.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. ágúst 2025.