Eitt helsta áherslumál seinustu alþingiskosninga var árangur í baráttunni við verðbólgu og tilheyrandi vaxtastig. Frá því í vor hefur þó verið heldur dauft á þeim vettvangi - verðbólga hefur haldist í kringum 4% og flestir greiningaraðilar gera nú ráð fyrir óbreyttum vöxtum út árið.
Í hverju átti ,,sleggja” stjórnvalda gegn verðbólgunni að felast? Fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar ber með sér minna aðhald en hjá fyrri ríkisstjórn. Aukin útgjöld, sem leita í aukna neyslu, viðhalda sterkri eftirspurn og þar með verðbólguþrýstingi. Húsnæðisliðurinn hefur lagt sitt af mörkum til verðbólgunnar, en lítið hefur farið fyrir áætlunum yfirvalda um að styðja við aukna og hagkvæma íbúðauppbyggingu eins og lengi hefur verið ákall um.
Ekki verður skautað fram hjá þeirri staðreynd að launaþróun hefur verið umfram efnahagslegt tilefni. Þeir langtímakjarasamningar sem undirritaðir voru í ársbyrjun 2024 gerðu ráð fyrir hagvexti og framleiðniaukningu á samningstímanum en sú varð ekki raunin á seinasta ári. Ef hækkun launa byggir ekki á aukningu verðmæta er þrautin þyngri fyrir vinnumarkaðinn að styðja við verðstöðugleika. Þá þarf opinberi markaðurinn að fylgja launastefnu almenna markaðarins, en þrátt fyrir breiða sátt á almennum og opinberum markaði við gerð langtímakjarasamninga var vikið af leið í kjölfar stjórnarskipta.
Fyrirtækin hafa að sjálfsögðu staðið við gerða samninga þó aðstæður hafi verið krefjandi. Til að forða frekari verðbólguþrýstingi þarf þó að treysta efnahagslegar undirstöður og auka verðmætasköpun með bættri framleiðni. Af nægu er að taka þegar kemur að ytri óvissu. Til að styðja við hagvöxt þurfa stjórnvöld að tryggja hagfelld og fyrirsjáanleg rekstrarskilyrði sem styðja við bætta framleiðni. Svo virðist hins vegar sem sleggjan hafi verið notuð til að berja á atvinnulífinu í formi aukinna álaga. Væri ekki skilvirkara að beina henni frekar að verðbólgunni?
Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.