Ríkisvaldið er ekki til fyrir sjálft sig. Það er til fyrir fólkið í landinu. Þetta er einföld en skýr meginregla. Í henni felst að ríkið á að verja líf, frelsi og eignir borgaranna, tryggja virkt réttarríki og setja skýrar leikreglur sem stuðla að heilbrigðum og opnum markaði. Þegar stjórnvöld víkja frá þessu grundvallarhlutverki verður stefna þeirra óljós, hagsmunagæsla veik og traustið minnkar.
Á Íslandi byggjum við velferð okkar á samkeppnishæfu atvinnulífi. Útflutningsgreinar eru burðarásar hagkerfisins og standa undir lífskjörum. Þess vegna þarf ríkisvaldið að gera tvennt. Annars vegar að tryggja gott rekstrarumhverfi innanlands: Einfalt regluverk, fyrirsjáanleika í skattlagningu og stöðugleika á vinnumarkaði. Hins vegar að verja aðgang okkar að erlendum mörkuðum með afdráttarlausri hagsmunagæslu sem skilar raunverulegum árangri í verki.
Áform um verndartolla í Evrópu hafa vakið áhyggjur í íslensku atvinnulífi. Þessar fyrirætlanir ganga bæði gegn anda og bókstaf EES samningsins. Í málum sem þessum þurfa stjórnvöld að tala skýrt og af festu, enda eru rök Íslands sterk. Við tökum virkan þátt í innri markaði, spilum eftir sömu leikreglum og aðrir og eigum því sama rétt á hindrunarlausum viðskiptum. Þegar slíkur réttur er virtur að vettugi skaðar það ekki einungis íslensk fyrirtæki heldur grefur það undan trúverðugleika EES samningsins í heild. Ef við látum málið reka á reiðanum munu aðrir ráða för og við sitjum eftir með lakari samkeppnisstöðu.
Að velja sér bardaga
En þegar við lítum út fyrir tollamálið blasir stærra mynstur við. Ísland á að láta til sín taka þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi. Það krefst skýrs mats á mikilvægi mála og óumdeildrar forgangsröðunar. Þegar pólitísk orka og fjármunir fara í átök sem snerta ekki afkomu landsmanna, stendur minna eftir til að verja störf, verðmætasköpun og lífskjör hér heima. Þjóðaröryggi okkar byggir á samstarfi innan NATO og traustu bandalagi við vinaþjóðir. Þar þarf málflutningur Ísland að vera afdráttarlaus og skýr, og gæta þess að hvert skref styrki stöðu landsins og veiki hana ekki.
Það er líka brýnt að sjá í gegnum tvískinnung í umræðunni um Evrópusambandið. Opinbert markmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að veikja samkeppnisstöðu Íslands til að geta síðar fært rök fyrir því að aðild að Evrópusambandinu sé lausnin. Slíkt er ekki hagsmunagæsla fyrir Ísland. Það er pólitísk afstaða sem þjónar öðrum tilgangi en að tryggja störf, verðmætasköpun og lífskjör.
Sterk hagsmunagæsla mælist ekki í yfirlýsingum heldur í árangri. Sama gildir um umræðuna um Evrópusambandið. Ef hefja á aðildarferli verður það að gerast með skýru umboði frá þjóðinni. Ég óttast ekki að þjóðin taki afstöðu í slíku máli, þvert á móti tel ég mikilvægt að það gerist. En það verður að fara fram fyrir opnum tjöldum, með heiðarlegri og yfirvegaðri umræðu um skýra valkosti. Ég hlakka til slíkrar umræðu, en hún þarf að byggjast á því að stjórnvöld setji hagsmuni Íslands í fyrsta sæti. Ábyrg stjórnsýsla krefst þess að við spyrjum í hvert sinn: Hver er ábatinn fyrir íslenskt fólk? Hver er áhættan? Hver er áætlunin?
Gera fátt og gera það vel
Kjarninn er þessi: Ríkið á að gera fátt en gera það vel. Ríkið á að tryggja öryggi, standa vörð um réttarríkið og tryggja frjáls viðskipti. Þegar við stöndum frammi fyrir verndartollum í Evrópu þarf samstilltan málflutning, gagnsæi um aðgerðir og skýra forgangsröðun. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig stjórnvöld verja stöðu fyrirtækja sem flytja út til Evrópu, hvaða skref hafa verið stigin og hver næstu skref verða.
Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram að beita sér fyrir skýrri hagsmunagæslu. Við viljum stjórnvöld sem standa vörð um frjálsa samkeppni, heiðarleg viðskipti og stöðugleika. Við viljum forystu sem talar með einni röddu fyrir Ísland þegar það skiptir máli og gerir það alltaf, ekki bara stundum. Það er á svona tímum sem sést úr hverju forystufólk er gert. Þegar aðstæður eru erfiðar er ekki tíminn til að þegja. Það er tíminn til að tala skýrt, verja hagsmuni Íslands og sýna að við ætlum að berjast fyrir því sem skiptir máli.
Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.