Óðinn fjallaði í byrjun ágúst um fjármálaáætlun 2026-2030 og boðaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sem koma þar fram.
Síðan þá hefur tvennt markvert gerst. Annars vegar er vaxtalækkunarferli Seðlabankans lokið í bili, sumir hafa jafnvel spáð því að vextir lækki ekki fyrr en í byrjun 2027, og aðstoðarseðlabankastjóri sagði bankann ekki myndi hika við að hækka vexti ef þyrfti.
Verðbólgumælingin í morgun er vissulega jákvæð en allir spámenn þjóðarinnar um verðbólgu, seðlabankinn og bankarnir og aðrir greiningaraðilar reikna með hærri verðbólgu í haust.
Í fjármálaáætluninni segir.
Helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs til þess að ná efnahagslegum stöðugleika og lækka verðbólgu og vexti.
Hins vegar kom í ljós að það er neyðarástand í Þjóðleikhúsinu þar sem vantar minnst 2.000 fermetra en líklega 3.000 fermetra. Kostnaðurinn sagði Logi Einarsson yrði 2 milljarðar. Það eru draumórar.
Þótt stækkun Þjóðleikshússins muni á endanum kosta 3-3,5 milljarða þá er það ekki aðalatriðið.
Skaðinn af svona yfirlýsingum er sá að enginn trúir því að verðbólga hjaðni og því munu verðbólguvæntingar haldast háar.
Hér á eftir er pistill Óðins um hugmyndir Kristrúnar Frostadóttur frá 2021 um 15 milljarða stóreignaskatt.
Er stóreignaskattur Kristrúnar næstur á dagskrá?
Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030 eiga skatttekjur með skattbreytingum að hækka um 67 milljarða króna.
Á mannamáli þýðir það að ríkisstjórnin ætlar að hækka skatt um 67 milljarða. Hið minnsta.
Í fjármálaáætluninni er ekki gert ráð fyrir hækkun á útgjöldum til varnarmála, úr 0,14% af vergri landsframleiðslu í 1,5% fyrir árið 2035.
Ríkisstjórnin hefur sagst ætla að reka ríkissjóð hallalausan og það þýðir að þessi nýju útgjöld þarf að sækja með skattahækkunum.
Ómögulegt án almennra skattahækkana
Veiðigjöldin munu, samkvæmt útreikningum atvinnuráðuneytisins, hækka tekjur ríkissjóðs um 10 milljarða króna. Það hefur reyndar komið í ljós að á þeim bænum kunna menn ekki að reikna. En gefum okkur samt þessa 10 milljarða.
Þá eru 57 milljarðar eftir. Ríkisstjórnin hefur boðað skatta á orkufyrirtækin, sem hækkar auðvitað orkureikning landsmanna er því skattur á hinn venjulega mann. Svo hefur ríkisstjórnin boðað skattahækkanir á ferðaþjónustuna, sem mun minnka afkomuna í greininni og getu greinarinnar til að borga hærri laun.
Óðinn fullyrðir að þrátt fyrir að hugmyndaauðgi vinstri manna sé engin takmörk sett þegar kemur að því að hækka skatta þá muni ríkisstjórninni aldrei takast að ná 67 milljörðum án þess að hækka skatta á hinn almenna skattgreiðanda.
Stóreignaskattur á litla eign
Fyrir alþingiskosningarnar haustið 2021 fór Samfylkingin af stað undir slagorðinu Betra líf, fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir.
Liður í þeirri áætlun var að láta aðra borga meira – stóreignafólkið svokallaða. Reyndar var þetta ekki óskaplega stór eign sem þurfti til að eiga til þess að komast í flokk stóreignamanna, eða 200 milljónir í hreina eign. Eða verðið á sæmilegu einbýlishúsi eða íbúð þökk sé lóðaskortsstefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem hefur verið rekin óslitið frá árinu 1994, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri R-listans.
Samfylking Kristrúnar Frostadóttur taldi haustið 2021 að með því að leggja á stóreignaskatt myndi tekjur ríkissjóðs aukast um 15 milljarða króna.
Áður en við víkjum að því skulum við rifja upp umfjöllun hins hlutlausa blaðamanns Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, sem birtist á Kjarnanum í ágúst kosningaárið 2021.
Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir að stóreignaskatturinn sé leið til að nútímavæða skattkerfið fyrir komandi kynslóðir.
Kristrún segir að tillögur flokksins um stóreignaskatta hafi ekkert með eignaupptöku að gera. „Hófleg skattprósenta á hreina eign umfram 200 milljónir króna þýðir einfaldlega að tekjur af eignum verða minni. Fjöldi rannsókna um allan heim bendir til þess að eignaskattur sé til þess fallinn að ýta undir arðbæra fjárfestingu, frekar en fjármagnstekjuskattur, því hvati skapast hjá einstaklingum sem eiga miklar eignir að fjárfesta í háávöxtunareignum til móts við eignaskattinn.
Rannsóknir og raunveruleiki
Það kann að vera að til séu rannsóknir sem styðja þessar hagfræðikenningu Kristrúnar Frostadóttur, að stóreignaskattur sé betri en fjármagnstekjuskatt. Hvers vegna vísuðu þau Kristrúnu og hlutlausi blaðamaðurinn þá ekki í einhverja þeirra í þessari viðamiklu umfjöllun sem var í Kjarnanum í ágúst 2021, stuttu fyrir alþingiskosningarnar sem fóru fram 25. september?
Svo óheppilega vildi til fyrir kenningasmiði Samfylkingarinnar þá vann Verkamannaflokkurinn í Noregi, systurflokkur Samfylkingar, sigur í þingkosningunum í september 2021.
Jonas Gahr Støre formaður flokksins varð forsætisráðherra og eitt af hans fyrstu verkum var að stórhækka eignaskattinn í Noregi, bæði með því að hækka álagningarprósentuna og hækka skattleysismörk og undþágur fyrir árið 2022.
Þá gerðist það sem allir vissu að myndi gerast. Nema auðvitað Samfylkingin á Íslandi. Samkvæmt norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv fluttu um 30 ríkustu menn Noregs frá landinu árið 2022. Það ár fluttu jafnmargir stóreignamenn frá landinu og fluttu samtals 13 árin þar á undan. Síðan þá hafa um 20-30 bæst í hópinn og hafa því 50-60 ríkustu menn Noregs farið frá landinu.
Eignarskattur skilar um 1,3% af skatttekjum í Noregi. Á sama tíma eru skatttekjur á olíuvinnslu um 30% af heildar skatttekjunum.
Alex Recouso, meðstofnandi og forstjóra svissneska ráðgjafarfyrirtækisins CitizenX hefur haldið því fram að áætluð hækkun á eignaskattinum hafi átt að skila 1,59 milljörðum norskra króna í árlegar skatttekjur.
Í stað þess hafi einstaklingar með samtals 588,6 milljarða norskra króna í eignum flutt frá landinu sem leitt hafi til tapaðra skatttekna á eignaskatti upp á 6,47 milljarða norskra króna í árlegar tekjur af eignaskatti. Óðinn hefur ekki getað staðreynt þessar tölur en hefur jafnframt ekki séð þær véfengdar.
Frá Sviss til Svíþjóðar
Flestir hafa þeir flutt til Sviss og margir til Lugano í kantónunni Ticino. Samkvæmt svissneskum skattareglum verða þeir að búa í að minnsta kosti þrjú ár í landinu til að losna undan eignaskatti í Sviss.
Nú hugsa sumir þeirra til hreyfings og kemur þá Svíþjóð vel til greina hjá sumum þeirra. Í norræna velferðarríkinu Svíþjóð hefur ekki verið lagður á eignaskattur frá árinu 2007.
Það sem er einnig hentugt fyrir Norðmenn að einfalt er að komast yfir landamærin en brottfluttu milljarðamæringarnir mega ekki eyða meira en 61 degi í Noregi.
Erfitt er fyrir norsk skattyfirvöld að fylgjast með dagafjöldanum. Skattyfirvöld, bæði hérlendis og erlendis, óska oft eftir upplýsingum frá flugfélögum um ferðir þeirra sem þeir gruna um að dvelja of lengi í gamla heimalandinu.
Íslendingar sem flytja utan þurfa að gæta þess að vera aðeins 182 daga á Íslandi, ella er hætta á að starfsmenn Ríkisskattstjóra fari að halda því fram að raunverulegt skattalegt heimilisfesti sé á Íslandi.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.