Einn fjölmargra kosta við sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á árinu er að almennum hluthöfum í bankanum fjölgaði mikið í útboðinu. Ólíkt því sem gerðist eftir almenna útboðið í bankanum 2021 hefur þeim ekki fækkað að ráði og á sama tíma hefur gengi bréfa bankans hækkað um fimmtung frá því að útboðið fór fram. Almenningur hefur haldið á bréfum sínum og bendir það til vaxandi áhuga heimila landsins á hlutabréfamarkaðnum. Mikilvægt er að hlúa að þeim áhuga.

Þrátt fyrir þetta hefur verið lítið um lúðrablástur á hlutabréfamarkaðnum undanfarin ár. Lítil stemning hefur verið á markaðnum og almennt séð hefur ávöxtunin í Kauphöllinni verið mun lakari en í kauphöllum annarra þróaðra ríkja. Vaxtasloppurinn í formi hárra raunvaxta hefur auðvitað ekkert gert til þess að styðja við markaðinn, en að sama skapi verður að hafa í huga að afkoma þeirra fyrirtækja sem eru skráð á markaðinn hefur verið með ágætum.

Þrátt fyrir að sumir kvarti yfir því að skortur sé á skráðum fyrirtækjum með mikla vaxtarmöguleika er að sama skapi hægt að líta á það sem styrkleika markaðarins hversu mörg traust rekstrarfélög með skýra arðgreiðslustefnu eru skráð.

Eggert Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá eignastýringu Kviku, gerir þessu misræmi sem hefur verið milli ávöxtunar hlutabréfa og afkomu fyrirtækjanna ágæt skil í grein sem birtist á vefnum Innherja fyrir nokkru. Hann tekur dæmi af bönkunum sem skráðir eru á markað:

„Þrátt fyrir að rekstur íslensku bankanna sé með miklum ágætum um þessar mundir hafa þeir setið talsvert eftir í ávöxtun gagnvart öðrum norrænum bönkum. Hlutabréfavísitala norræna banka (leiðrétt fyrir arði) hefur hækkað rétt um 31% það sem af er ári mælt í evrum en á sama tímabili hafa Arion, Íslandsbanki og Kvika, sem eru meðal þeirra 40 fjármálafyrirtækja sem mynda þessa vísitölu, hækkað á bilinu 6-12% að teknu tilliti til arðgreiðslna. Evran hefur veikst lítillega gagnvart íslensku krónunni á árinu og skýrir því vart þennan mikla mun á umframávöxtun upp á 18-23%.“

Eggert bendir svo réttilega á að afkoma bankanna hafi verið með miklum ágætum á öðrum ársfjórðungi og í einhverjum tilfellum umfram væntingar. En er það svo að fjárfestar á íslenska hlutabréfamarkaðnum verði að gera sér arðgreiðslur og endurkaupaáætlanir að góðu á meðan lognmolla hvílir á gengisþróuninni? Það er hæpið. Til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að verðlagning hlutabréfanna slái meira í takt við afkomu og rekstrarframmistöðu.

Margt bendir til að undanfarin ár á fjármálamarkaði hafi einkennst af frávikum fremur en breyttu landslagi til frambúðar. Ágætt dæmi um það er sú staðreynd að innlán hafa skilað betri ávöxtun en til að mynda skuldabréf undanfarin fjögur ár. Eins og bent er á í nýlegri greiningu frá Kviku er þetta ekki í takt við hið sögulega samhengi þar sem skuldabréf hafa jafnan skilað umtalsvert betri ávöxtun.

Í greiningu Kviku er bent á að bæði stýrivextir og lengri kröfur skuldabréfa séu yfir langtímameðaltali og viðbúið sé að vextir fari „almennt lækkandi út rófið þegar horft er til millilangs tíma“, eins og það er orðað í greiningu Kviku.

Hvenær það gerist getur enginn tímasett og það gerir myndina óskýrari hversu verðbólga er þrálát og svigrúm Seðlabankans til vaxtalækkana í raun lítið. En þetta ferli mun hefjast að lokum og það að sjálfsögðu skapa tækifæri á markaði. Það sem hins vegar tefur hina óumflýjanlegu aðlögun er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og ruðningsáhrif viðvarandi hallareksturs.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 20.ágúst 2025.