Í umræðunni heyrum við æ oftar að nú sé búið að „dæla í nýsköpun“ – að nægur tími og peningar hafi farið í að styðja við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki á undanförnum árum. En þessi sýn er ekki í takt við veruleikann. Við erum ekki komin á endastöð – við erum rétt að ná flugi og rétt er að halda því til haga að peningurinn sem hefur verið settur í nýsköpun síðustu ár hefur komið margfalt til baka í þjóðarbúið í formi launaskatta og erlendra tekna.
Á síðustu tíu árum hefur nýsköpunarumhverfið á Íslandi tekið stórstígum framförum. Fjöldi sprotafyrirtækja hefur náð að vaxa, fjárfesting hefur margfaldast og samfélagið hefur í auknum mæli viðurkennt mikilvægi nýsköpunar fyrir framtíðarhagvöxt. En við megum ekki láta blekkjast – þetta er ekki sjálfbært enn.
Nýlega stóð ég fyrir óformlegri könnun meðal frumkvöðla og aðila í nýsköpunarumhverfinu sem sýnir svart á hvítu hvar þarf að gera betur, eftirfarandi eru þau atriði sem skoruðu hæst:
- Fjármögnun á fyrstu stigum (pre-seed) – 27%
- Hraðari og fyrirsjáanlegri afgreiðslu á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunarkostnaðar – 24%
- Sterkari tengingar við erlenda markaði og fjárfesta – 14%
Hér að neðan vil ég útskýra betur hvað þetta þýðir – og hvað við getum gert.
Við þurfum íslenska pre-seed sjóði
Fjármögnun á fyrstu stigum (eða „pre-seed“) er eitt af því allra mikilvægasta fyrir ný sprotafyrirtæki og jafnframt það erfiðast í flestum tilvikum. Á Íslandi höfum við öfluga vísisjóði sem einbeita sér að því að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru komin af stað – sem eru á svokölluðu „seed“ stigi. Þetta eru fyrirtæki sem eru komin með teymi, vöru og jafnvel tekjur.
En þau sprotafyrirtæki sem eru rétt að byrja – með góða hugmynd, markaðstækifæri og sterkt teymi – þurfa annan stuðning. Þar vantar enn skýran farveg og fjármögnun. Við þurfum íslenska pre-seed sjóði – sem fjárfesta snemma, með skilningi á áhættunni, en líka með trú á vaxtarmöguleikunum. Slíkir sjóðir eru víða erlendis studdir af opinberum aðilum. Það væri frábært ef íslensk stjórnvöld og lífeyrissjóðirnir gætu sameinast um að styðja slíka sjóði – líkt og þau hafa gert með vísisjóðunum.
Meiri fyrirsjáanleiki og skilvirkni í R&Þ endurgreiðslum
Sprotafyrirtæki á Íslandi geta fengið endurgreiddan hluta af kostnaði sem þau leggja í rannsóknir og þróun. Þessi endurgreiðsla er að mínu mati mikilvægasta tólið til að styðja við nýsköpun hér á landi og er sambærilegt og gert er víða um heim. Óhætt er að segja að endurgreiðsla á R&Þ er eitt öflugasta verkfærið sem við höfum til þessa til að styðja við íslenska nýsköpun. En því miður hefur ferlið hér verið of hægvirkt og of fyrirsjáanleikinn oft lítill fyrir fyrirtækin sem treysta á þessa endurgreiðslu.
Það getur haft bein áhrif á rekstur og áætlanir fyrirtækjanna – þau vita oft ekki nægilega fljótt hvort þau fái endurgreiðsluna eða ekki, og þurfa svo að bíða þar til í lok árs að fá hana greidda. Þetta getur dregið úr hraða sem oft skiptir miklu máli þar sem nýsköpun er annars vegar. Rannís hefur það hlutverk að vinna úr umsóknum og líkleg ástæða fyrir hægagangi er mannekla og að ferlar í kringum þetta eru ekki nægilega skýrir.
Nauðsynlegt er að ræða þessi mál opinskátt – ekki til að gagnrýna einstaklinga, heldur til að bæta kerfið. Ef Rannís fær skýrari ramma, nægilegt fjármagn og mannskap til að sinna þessu mikilvæga hlutverki, vinnum við öll.
Sterkari tengingar við erlenda markaði
Ef við viljum að íslensk sprotafyrirtæki vaxi og dafni þurfum við að horfa út fyrir landsteinana. Erlendir markaðir og erlendir fjárfestar skipta öllu máli þegar kemur að vexti. Hér hefur margt jákvætt gerst síðustu ár: Íslandsstofa hefur til dæmis farið með nýsköpunarfyrirtæki á nýsköpunarviðburði á Norðurlöndnum og Bandaríkjunum, í samráði við sendiráðin. Þar hefur fókusinn hefur verið á að tengja frumkvöðla við mögulega viðskiptavini og fjárfesta sem er virkilega vel gert.
En við getum gert miklu meira. Eitt af því sem virtir háskólar eins og MIT mæla með er að nýta betur tengslanet landsmanna sem búa erlendis. Ísland á marga vel tengda og áhrifamikla einstaklinga sem búa í stórborgum víða um heim og gætu verið lykilaðilar í að opna dyr að fjárfestum, viðskiptavinum eða samstarfsaðilum fyrir íslensk sprotafyrirtæki. Mögulega gætum við virkjað þessa hópa markvisst – með sameiginlegri sýn og úrræðum.
Nýsköpun er langtímaverkefni – ekki styrktarátak
Við erum á réttri leið. Það hefur margt áunnist og umhverfið er öflugra en nokkru sinni fyrr. 16% af gjaldeyristekjum Íslands í fyrra komu frá hugverkageiranum. En það er mikilvægara nú en nokkru sinni að við missum ekki dampinn. Við erum að byggja upp vistkerfi sem getur skapað verðmæti, störf og gjaldeyristekjur sem ekki eru háðar auðlindum Íslands. Þetta gerist ekki á einni nóttu – heldur með stöðugri og samstilltri áframhaldandi uppbyggingu næstu árin.
Ef við höldum áfram að styðja frumkvöðla, fjárfesta í fyrstu stigum, tryggja fyrirsjáanleika og virkja alþjóðleg tengslanet – þá getur Ísland alið af sér fleiri öflug fyrirtæki og jafnvel einn og einn einhyrning (eins og Kerecis). Það er ekki draumsýn – það er verkefni. Og það er ekki kominn tími til að slaka á, heldur gefa í!
Höfundur er stofnandi fjárfestingafyrirtækisins Nordic Ignite og hefur verið þátttakandi í íslenska nýsköpunarumhverfinu síðustu 17 ár.