Guðni Bergsson lögmaður og fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta fæddist árið 1965. Hann ólst upp Fossvoginum, sem var og er mikið Víkingshverfi en sjálfur hefur hann alltaf verið mikill Valsari. Valsaragenið erfði hann frá föður sínum, Bergi Guðnasyni, fyrrum leikmanni og síðar formanni Vals.

Hann er giftur Elínu Konráðsdóttur félagsráðgjafa en þau eiga saman börnin Berg og Páldísi Björk.

Guðni í baráttu við Rudd Van Nistelrooy í leik með Bolton á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni árið 2002.
Guðni í baráttu við Rudd Van Nistelrooy í leik með Bolton á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni árið 2002.

Þegar Guðni var 23 ára lá leiðin út í atvinnumennsku til Englands þar sem hann spilaði með Tottenham og Bolton á árunum 1988 til 2003. Guðni á að baki 80 A – landsleiki fyrir íslenska karlalandsliðið í fótbolta.

Samhliða knattspyrnuferlinum lærði Guðni lögfræði en hann starfar í dag sem lögmaður hjá Lögvangi. Eftir að ferlinum lauk hefur Guðni meðal annars sinnt hlutverki formanns KSÍ og stofnað, ásamt nokkrum félögum sínum, Knattspyrnuakademíu Íslands.

„Ferilinn hófst í Val þegar ég var 10 ára í 5.flokki. Þá fór maður yfirleitt í strætó á æfingar niður á Hlíðarenda úr Fossvoginum. Fótboltinn var það sem allir strákar léku sér í þegar ég var að alast upp enda voru tölvurnar ekki komnar til sögunnar,“ segir Guðni um upphafið á knattspyrnuferlinum og ástæðuna fyrir því að hann dróst í fótboltann.

Guðni Bergsson lék með Tottenham Hotspur á árunum 1988 - 1994.
Guðni Bergsson lék með Tottenham Hotspur á árunum 1988 - 1994.

Guðni spilaði um 20 ár í meistaraflokki, frá 18 til 38 ára aldurs. „Allt byrjaði þetta með sterku Valsliði sem ég lék með á árunum 1983 til 1988 áður en ég fór út í atvinnumennsku. Við vorum með hörkulið, unnum tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikarmestaratitil ásamt því að ná oft góðum árangri í Evrópukeppnum. Þar eignaðist ég líka nokkra af mínum bestu vinum en þessi hópur var einstaklega góður að mínu viti bæði fótboltalega og félagslega,“ segir Guðni um árin sín hjá Val.

Viðtalið við Guðna má lesa í heild sinni í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á föstudaginn. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.