Kínversk stjórnvöld tilkynntu í síðasta mánuði að þau myndu endurskoða tollana sína á áströlsku víni sem sitja nú í 218% eftir viðskiptastríð sem hefur verið á milli landanna undanfarin ár.

Ástralskir vínútflytjendur tóku ákvörðuninni fagnandi og vonuðust eftir jákvæðri niðurstöðu, sérstaklega í ljósi fundar Xi Jinping forseta Kína og Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu.

Eftir fundinn sagði Albanese við blaðamenn að hann hafi ítrekað mikilvægi frjálsra viðskipta og þau myndu þjóna báðum þjóðum. Xi sagðist vera sammála og sagði einnig að honum þætti ástralskt vín sérstaklega gott.

Hann sagði einnig að hann hafi fyrst uppgötvað gæði rauðvíns á Nýja-Sjálandi en Albanese fullyrti yfirburði ástralskra vína þegar kæmi að gæðum.

Samskipti þjóðanna virðast hafa batnað heilmikið frá því árið 2020 þegar áströlsk yfirvöld kölluðu eftir alþjóðlegri rannsókn á uppruna Covid-19 heimsfaraldursins í Wuhan. Kínversk stjórnvöld reiddust einnig þegar Huawei var meinað frá því að taka þátt í uppsetningu 5G í Ástralíu og í kjölfarið kom sá frægi 218% víntollur.

Á þeim tíma var Kína stærsti markaður í heimi fyrir áströlsk vín en ári seinna, árið 2021, hafði vínsala á kínverska meginlandinu dregist saman um 97% og ákvað Wine Australia að loka skrifstofu sinni í Shanghai.

Ástralir eru nú að glíma við offramboð en heildarútflutningur þeirra hefur dregist saman um 33% undanfarin tvö ár. Framleiðendur eru nú með nóg af víni til að fylla 859 ólympískar sundlaugar.

Layla Wang, sem rekur Trio-vínbarinn í Peking, er ein þeirra sem segir að kínverskir neytendur myndu fagna endurkomu ástralsks víns.

„Við tengjum öll við þetta gæðavín. Fyrir okkur erum við svo sannarlega ánægð að geta boðið viðskiptavinum okkar meira úrval, sérstaklega þar sem neytendur hafa ekki fengið áströlsk vín í svo langan tíma,“ segir Layla.