Framvís, samtök vísifjárfesta hefur ráðið Svövu Björk Ólafsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins. Framvís samtökin voru stofnuð árið 2018 og eru samstarfsvettvangur engla- og vísifjárfesta sem vinna að því að efla vistkerfi vísifjárfestinga á Íslandi.

Svava Björk er stofnandi RATA og er sérfræðingur í nýsköpun og verkefnastjórnun. Hún hefur um 10 ára reynslu úr vistkerfi nýsköpunar hér á landi þar sem hún hefur sinnt ráðgjöf, pitch þjálfun og stýringu stuðningsverkefna.

Hún er ein af stofnaðilum Norðanáttar sem er hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi og vinnur nú náið með Sunnanátt á Suðurlandi. Hún er ein stofnenda fræðsluvettvangsins Hugmyndasmiðir sem hefur það markmið að efla nýsköpunar- og frumkvöðlafærni barna og hvetja þau til að skapa lausnir fyrir framtíðina.

Svava hefur undanfarin ár stýrt stærsta nýsköpunarnámskeiði landsins í Háskólanum í Reykjavík og er englaráðgjafi hjá norræna fjárfestingarfélaginu Nordic Ignite. Hún mun sinna hlutverkinu samhliða öðrum verkefnum.

„Við hjá Framvís erum ótrúlega ánægð að fá Svövu Björk til liðs við samtökin þar sem hún býr yfir áralangri reynslu og þekkingu á vistkerfi nýsköpunar ásamt viðamiklu tengslaneti. Hún hefur verið kraftmikil á sínu sviði undanfarin ár, bæði í stuðningi beint við frumkvöðla sem og við aðra stuðningsaðila. Hún mun halda því góða starfi áfram og bætir hér við stuðningi við engla- og vísisjóði í gegnum starf samtakanna,” segir Svana Gunnarsdóttir, formaður Framvís.

Hlutverk Framvís samtakanna er í fyrsta lagi að auka sýnileika og aðdráttarafl Íslands sem fjárfestingakosts að utan en einnig að tala einu máli fyrir hönd meðlima þess. Samtökin starfa náið með hinu opinbera að stefnumótun og stuðla að vönduðum vinnubrögðum með fræðslu, upplýsingagjöf og gagnasöfnun.

Fyrirtæki framtíðarinnar – Hugvitsdrifið hagkerfi

Þann 8. desember næstkomandi fer fram Morgunráðstefna Framvís 2022 í Grósku undir yfirskriftinni: Fyrirtæki framtíðarinnar - Hugvitsdrifið hagkerfi.

„Flutt verða erindi sem varpa ljósi á það hvernig fjárfesting í nýsköpun er ekki bara mikilvæg heldu einnig arðbær.“

Fram koma:

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar
  • Björn Tremmerie, Head of Venture Capital and Impact Investing at the European Investment Fund
  • Tómas N Möller, Formaður Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og yfirlögfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna
  • Sæmundur K Finnbogason, sjóðsstjóri Kríu
  • Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi Frumtak Ventures, Stjórnarformaður Framvís
  • Helga Valfells, framkvæmdastjóri og meðeigandi Crowberry Capita
  • Linda Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Tennin