Gera má ráð fyrir að innkaup ríkisstofnana á raforku, sem hluta af nýjum rammasamningi, muni geta numið einum milljarði króna árið 2024. Ríkið kaupir nú upprunaábyrgðir og er áætlað að kostnaðurinn við þau kaup sé um 10%, eða um 100 milljónir á einu ári.

Ávinningurinn af sameiginlegu útboði hins opinbera að þessu sinni nemur um 48 milljónum á ári en í fyrri útboðum var ávinningurinn um 187 milljónir á ári. Ýmsar skýringar kunna að liggja þar að baki en mikil óvissa er um þessar mundir á raforkumarkaði sem hefur óneitanlega áhrif.

Þá má ætla að stefna ríkisins þegar kemur að kaupum á upprunaábyrgðum hafi einhver áhrif og velta má fyrir sér þörf ríkisins á slíkum ábyrgðum. Íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum og því má ganga út frá því að uppruni orkunnar sem ríkisstofnanir nota sé græn, hvort sem upprunaábyrgð er til staðar eða ekki.

Einnig er ljóst að framboð er takmarkað og skapast hefur umframeftirspurn eftir upprunaábyrgðum, einna helst erlendis. Þannig er ljóst að íslensk orkufyrirtæki myndu ekki tapa á því ef ríkið myndi sleppa því að kaupa upprunaábyrgðir þar sem erlendir notendur myndu líklega taka þeirra pláss.

Vissulega má færa rök fyrir því að ríkið sé að setja ákveðið fordæmi með kaupunum en meðan staðreyndin er sú að ríkissjóður verður rekinn með halla næstu ár vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort horfa mætti til hagræðinga á þessu sviði, líkt og öðrum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.