Karl III. verður krýndur konungur Bretlands um helgina, þann 6. maí. Hann tók við konungdómi þann 8. september í fyrra í kjölfar andláts móður sinnar, og var elstur í sögunni til að taka við embætti þjóðhöfðingja Bretlands, 73 ára að aldri.

Breski fjölmiðilinn The Guardian fékk nú á dögunum tólf sérfræðinga til að framkvæma yfirgripsmikla úttekt á persónulegum eignum Karls, sem eru að miklu leyti leyndar frá almenningi.

Þar eru eignir hans metnar á að minnsta kosti 1.815 milljónir punda, eða sem nemur 309 milljörðum króna. Um er að ræða persónulegar eignir Karls, ekki eignir breska konungdæmisins.

Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes mat verðmæti eigna krúnunnar á jafnvirði 3.920 milljarða króna í fyrra. Stór hluti þeirra eigna eru hallir, kastalar og lóðir. Tímaritið mat til dæmis Buckinghamhöll á 686 milljarða króna. Karl III Bretakonungur mun stýra þessum eignum en með miklum takmörkunum. Hann getur ekki ráðstafað eignunum að eigin vild, til dæmis með sölu.

Nánar er fjallað um Karl 3. Bretakonung í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 4. maí.