Ölgerðinni barst í síðasta mánuði úrskurður frá tollgæslu Skattsins vegna endurákvörðunar aðflutningsgjalda sem hefur 292 milljóna króna neikvæð áhrif á eigið fé samstæðunnar, að því er kemur fram í árshlutareikningi sem félagið birti í gær. Ölgerðin hefur kært úrskurðinn til Yfirskattanefndar.
„Niðurstaða úrskurðarins er endurákvörðun aðflutningsgjalda af innfluttri vörutegund sem Ölgerðin hafði fengið tollafgreidda á tímabilinu 2017-2022,“ segir í uppgjörinu. Félagið tilgreinir ekki nánar um hvaða vörur er að ræða.
Ölgerðin bókfærir hin 292 milljóna króna áhrif úrskurðarins þannig að eigið fé í upphafi fjárhagsársins lækkar um 232 milljónir króna og áhrifin á rekstur þriðja fjórðungs fjárhagsársins, sem lauk 30. nóvember, er 60 milljónir en þar af eru 30 milljónir færðar meðal fjármagnsgjalda.
Félagið upplýsti í október, samhliða uppgjöri annars ársfjórðungs, að því hefði borist bréf frá tollgæslu Skattsins vegna málsins. „Ef aðflutningsgjöld verða endurákvörðuð á þeim grunni sem tilgreindur er í bréfinu mun fjárhæð þeirra hækka sem nemur 153 mkr að viðbættu álagi og dráttarvöxtum,“ segir í uppgjöri annars fjórðungs sem var birt í lok október.
Ölgerðin upplýsti í gær að í kjölfar úrskurðarins hefði félagið fengið bindandi álit frá Skattinum varðandi hliðstæðar vörur. Þau álit eru í samræmi við tollflokkun Ölgerðarinnar.