Ölgerðin hagnaðist um 574 milljónir króna eftir skatta á þriðja fjórðungi fjárhagsársins 2022, þ.e. frá september til nóvember, sem er 14% aukning frá sama tímabili árið áður. Ölgerðin birti uppgjör eftir lokun markaða í dag.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 17% á milli ára og námu 7,2 milljörðum á fjórðungnum. Rekstrargjöld jukust um 14% og námu 6,1 milljarði. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1,2 milljörðum sem þriðjungsaukning frá fyrra ári.

Í afkomutilkynningu Ölgerðarinnar segir að bjórsala til hótela og veitingastaða á fjórðungnum hafi aukist um 25% á milli ára. Þá var 16% magnaukning í áfengissölu hjá ÁTVR. Auk þess hafi sala á snyrtivörum verið góð.

„Fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands hefur haft jákvæð áhrif á eftirspurn eftir vörum Ölgerðarinnar og gætir áhrifa þeirra víða.“

Stjórnendur Ölgerðarinnar gera ráð fyrir að EBITDA fjárhagsársins verði í efri enda áður útgefinnar afkomuspár, sem var á bilinu 4,1-4,4 milljarðar. Möguleg verkföll á vinnumarkaði geta þó haft neikvæð áhrif.

Eignir Ölgerðarinnar voru bókfærðar á 25,9 milljarða króna í lok nóvember. Eigið fé félagsins var 9,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall 36%.